151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[22:20]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru stórar spurningar sem tvær mínútur munu tæpast duga til að svara. En ég ætla aðeins að koma fyrst inn á landbúnaðinn, botna þá umræðu. Hv. þingmaður nefndi að bændur á Íslandi væru með lökust kjör í Evrópu. Það á sérstaklega við um sauðfjárræktina. Þeir eru neðstir. En nautgripabændur eru ekki þar, þeir eru mjög ofarlega í þessum samanburði. Sá fyrirvari er að styrkina vantar væntanlega inn í þennan samanburð varðandi sauðfjárræktina. Ég þekki þetta samt ekki nægilega vel en þannig er svona grófa myndin. Ég ætla að nefna varðandi nýbreytnina að Matvælasjóður hefur tekið til starfa og hefur úthlutað í um 60 verkefni. Þar af eru 28 í landbúnaði, nýjar hugmyndir … (HKF: … til stórra aðila í greininni. ) — Ekki í landbúnaði. (Gripið fram í.) Nei, þetta er mjög dreift og fín gróska. Svo kemur gagnrýni á að þeir stóru séu að gleypa þetta í sig allt saman. Stóru breytingarnar verða ekki alltaf bara fyrir lítil verkefni. Það þarf líka oft og tíðum breidd, þekkingu, fjármuni til að gera hluti að veruleika.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir um tímabindingu og opið samtal og annað þá hafa formenn stjórnmálaflokkanna á þingi nú setið yfir þessu í þrjú ár, reynt að ná þessu samtali. Enn erum við á þeim stað sem hv. þingmaður nefnir, að ekki sé sátt o.s.frv. Ég veit það ekki, stundum líður mér þannig eins og menn vilji bara ekki sátt. Ég treysti þessum formönnum öllum til að reyna að komast að einhverri skynsamlegri niðurstöðu, en þeir eru búnir að sitja yfir því í þrjú ár, held ég, að reyna að ná þessari svokölluðu sátt en það verður aldrei sátt vegna þess að flestir nálgast það þannig að ef þið samþykkið ekki það sem ég legg til þá er ég bara ósáttur.

Varðandi þá spurningu sem hv. þingmaður beindi til mín um tímabundna samninga, hvort ég sé inni á því, þá ætla ég bara að minna hv. þingmann á að við vorum einu sinni í samstarfi í ríkisstjórn. Þar ákváðum við í stjórnarsáttmála að við ætluðum að vinna að því að koma á tímabundnum samningum. (Forseti hringir.) Af ýmsum ástæðum, sem of langt mál er að rekja, náðist engin niðurstaða í það. En það segir allt um það að Sjálfstæðisflokkurinn hefur (Forseti hringir.) alltaf verið tilbúinn til að ræða þessa hluti.