151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:20]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég get ekki nefnt dagsetningu á því en átakið sem ég nefndi áðan, bæði um þrífösun og jarðstrengjavæðingu, flýtir fyrir áformum Orkubús Vestfjarða sem lúta að hringtengingunni. Eins og ég nefndi áðan varðandi Vestfirði almennt þá eru þeir í forgangi í þingsályktun sem þingið samþykkti og Landsnet vinnur eftir því. En hringtengingin í heild sinni snýr meira að Landsneti og það eru kannski ekki ákvarðanir sem við tökum hér sem hafa með beinum hætti áhrif á það en vissulega með óbeinum hætti, eins og ákvarðanir um að flýta þrífösun og flýta jarðstrengjavæðingu og svo getur annað regluverk auðvitað gert það. En það er inni í kerfisáætlun Landsnets og í framkvæmdunum þar. Nákvæmlega hvenær það gerist þori ég ekki að segja til um. Ákvörðun sem við höfum tekið, með þingsályktun um að Vestfirðir séu í forgangi, og það markmið að við náum að hringtengja Vestfirði hjálpar til við þá ákvörðun sem síðan eru hvort tveggja í höndum Orkubús Vestfjarða, í því regluverki sem þar er, og hjá Landsneti og í kerfisáætlun. Kerfisáætlun fer auðvitað fyrir Orkustofnun til samþykkis. Þannig að þessu vindur fram og því fyrr sem það gerist, því betra. Ég get tekið undir með hv. þingmanni um bæði afhendingaröryggi og tækifæri landsvæðanna til að sækja fram og sækja nýjar fjárfestingar og byggja upp hvað varðar grunninnviðina sem ég veit að mikið er rætt um. Raforka, bæði afhending og að hún sé til staðar, er vissulega partur af þeim grunninnviðum sem þurfa að vera til staðar til að svæðin geti sótt fram á sínum forsendum.