151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:58]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur aldeilis verið ólöt að draga upp stórkostlegar glansmyndir af verkum sínum á kjörtímabilinu. Þau hafa lagt áherslu á viðamikla uppbyggingu innviða samfélagsins, aukið framlög til byggðamála, uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum og aukið í landvörslu og aðgerðir á sviði umhverfismála. Flest í þessari upptalningu er langt umfram tilefni og verið minna en brýn þörf hefur verið á í þessum mikilvægustu málaflokkum.

Fjölbreyttar og arðbærar fjárfestingar eru undirstaða aukinnar verðmætasköpunar og aukin innviðafjárfesting mun verða lykilatriði til að koma okkur út úr atvinnukreppunni. En við verðum að gera mun betur. Fjárfesting í innviðum hefur verið of lítil á síðustu árum og það mun bitna á þjóðinni til lengri tíma ef ekki verður bætt úr. Í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins kemur fram að fyrirhuguð aukning í opinberri fjárfestingu mun lítið saxa á þá uppsöfnuðu viðhaldsþörf sem skapaðist í kjölfar síðustu niðursveiflu. Til þess að ástand innviða geti talist ásættanlegt verður að setja enn meiri kraft í opinbera fjárfestingu í innviðum og þörf er á 420 milljarða fjárfestingum til að koma þessum málum í viðunandi horf að mati Samtaka iðnaðarins. Við náum ekki að óbreyttu að uppfylla eðlilega viðhaldsþörf. Það eru gefnar út sverar yfirlýsingar um miklar fjárfestingar í vegaframkvæmdum. Síðan þegar til kastanna kemur og sýnt á spilin er stefnt í þveröfuga átt ef litið er til núgildandi fjármálaáætlunar og rétt lesið í hana. Fjárframlög í framkvæmd lækka frekar en aukast. Við sjáum að lækkunin nemur 30% á næstu fimm árum. Það er óverjandi í ljósi viðhaldsþarfar og af efnahagsástæðum. Hvernig skýrir hæstv. ráðherra þetta? Engin verkefni eru nú í gangi í jarðgangaframkvæmdum þrátt fyrir hrópandi þörf. (Forseti hringir.) Hvað segir þetta okkur um undirbúning og áætlanir og metnað stjórnvalda í þessum efnum? Hvaða sýn er verið að boða?