151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:24]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa snöru yfirferð. Í síðustu fjármálaáætlun voru veittir fjármunir til þess að bæta og stækka húsnæði vegna endurhæfingardeilda Landspítalans við Grensás. Ég heyrði vel hvað hæstv. ráðherra sagði hér vegna þess og það er mjög ánægjulegt að nú sé loks ráðist í þessar framkvæmdir og þær kláraðar. Það sem ég velti fyrir mér eru aðrar endurhæfingarstofnanir. Ég nefni Kristnes og Reykjalund og Hveragerði o.fl., þar sem endurhæfing felur í sér öll úrræði sem miða að því að fólk endurheimti andlega, líkamlega og félagslega færni eða að viðhalda færni fólks og fyrirbyggja frekari skerðingu. Endurhæfing byggist á virkri þátttöku sjúklings og þverfaglegu samstarfi fagfólks þar sem helstu fræðigreinar eru sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, félagsráðgjöf, hjúkrun, læknisfræði, sálfræði og talmeinafræði. Endurhæfing er hluti af almennri þjónustu sjúkrahúsa en hún er einnig veitt á þessum endurhæfingarstofnunum og þess vegna dreg ég þær svolítið fram. Ég fagna því auðvitað að ráðast eigi í uppbyggingu og klára á Grensás. En ég er dálítið spyrjandi gagnvart þessum öðrum stofnunum sem gegna jafn miklu hlutverki og mér finnst slæmt ef við ætlum bara að hugsa til þess að byggja upp á einum stað umfram annan þegar við tökum allt landið undir.