151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

lagagrundvöllur sóttvarnareglugerðar.

[15:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þá blasir við að spyrja: Hver urðu viðbrögð heilbrigðisráðherra eða heilbrigðisráðuneytisins við þessari álitsgerð þegar hún lá fyrir? Það virðist af gögnum málsins að þetta sé í raun fyrsta lögfræðilega úttektin sem gerð hafi verið af einhverri dýpt varðandi þessa reglugerð, sem var síðan dæmd ólögleg eða þannig að hún hefði ekki stoð í lögum. Ráðherra segir réttilega að það sé ekki hlutverk dómsmálaráðuneytisins að kanna lagalegan grundvöll reglugerða annarra ráðherra, en það er engu að síður gert í þessu máli. Í kjölfarið vekur sú leynd sem virðist eiga að liggja yfir þessu minnisblaði, þessari lögfræðilegu álitsgerð, auðvitað upp enn fleiri spurningar um það hvers konar hrakförum þetta mál virðist hafa lent í í meðförum dómsmálaráðherra.