151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[16:41]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma hér aðeins upp og spyrja hæstv. ráðherra og þakka fyrir þetta frumvarp sem ég tel vera mikilvægt. Umræðan sem skapaðist í fundarstjórninni áðan, að við værum að vanvirða annað frumvarp sem legið hefði í velferðarnefnd og ekki náð í gegn — ég tel að sú umræða sem fór fram í velferðarnefnd á þeim tíma um það frumvarp hafi verið mjög mikilvæg vegna þess að við þurfum að taka snúning á þessu, ekki bara hér á þingi heldur líka í samfélaginu, í samfélagsumræðunni. Þetta er mikil breyting en ég er fylgjandi henni þó að ég hafi viljað taka aðeins betri og fleiri snúninga á þessu en gert var í vor. Það er samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að við þurfum að snúa af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna og vinna frekar að viðunandi meðferðarúrræðum sem við höfum þó gert nú á þingi. Rekstur neyslurýma var stór og mikilvægur áfangi, að hverfa frá þyngri refsingu fyrir vörslu neysluskammta og að smávægileg brot fari ekki á sakaskrá. Allt eru það skref í sömu átt. En mig langar aðeins til að spyrja hæstv. ráðherra um þetta frumvarp, hvort strax í fyrra hafi farið af stað vinna varðandi hið breytta landslag bæði hjá lögreglu og meðferðarfulltrúum, og hvað hafi verið gert til að undirbúa þá breytingu. Í annan stað var talsvert kvartað í fyrra og var þó samráð haft við lögreglu og þá aðila sem þá stóðu í þessum málum.