151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þó að mér hafi fundist síðra að hann skyldi leggja lykkju á leið sína til þess að vera með einhvers konar uppnefningar á þingmálum, sem mér finnst alltaf svolítið einkennilegur stíll; þetta heitir furðuverk og nýaldarstefnumál og eitthvað svona, vegna þess að ég held að þetta mál verðskuldi efnislega umræðu. Ég held að það þoli það alveg vegna þess að þetta snýst nefnilega um líf og dauða. Þetta snýst um heilsu og þetta snýst um alvöru lífsins fyrir mjög skilgreindan hóp sem verið er að nálgast á nýjan hátt með þessu frumvarpi og ég hvet hv. þingmann til að taka þátt í þeirri umræðu. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að það er ekki beint orsakasamhengi á milli afglæpavæðingar neysluskammta til eigin nota og aukningar á nýgengi notkunar ávana- og fíkniefna í samfélaginu, þannig að fullyrðingar hv. þingmanns um annað eru ekki á rökum reistar. Rannsóknir sýna að þegar sala er eftir sem áður ólögleg er aðgengi áfram óbreytt í samfélaginu. Þannig að fullyrðingar um aukið aðgengi eiga ekki við rök að styðjast. Bannstefnan hefur ekki virkað og Framsóknarflokkurinn ætlaði svo sannarlega að losa Ísland við fíkniefni árið 2000 og sagan segir okkur hvernig við nálguðumst það markmið og hvar það er.

Virðulegur forseti. Fólk er í vandræðum í dag. Ungt fólk er að deyja í dag. Það er staðan. Þannig að ég spyr hv. þingmann í fullri vinsemd, vegna þess að margir af félögum hans í Miðflokknum greiddu atkvæði með neyslurýmum og þeirri lagabreytingu sem þar var gerð: Er í huga hv. þingmanns reginmunur á þeirri lagasetningu og því frumvarpi sem hér er lagt til?