151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra segir að þetta mál snúist um líf og dauða. Þar get ég verið sammála hæstv. ráðherra, eins og ég gat um áðan. Oft getur það verið munur á lífi og dauða hvort það tekst að grípa inn í og hjálpa einstaklingi sem er jafnvel ekki í standi til að átta sig á því sjálfur að hann þurfi á hjálp að halda. Það getur líka verið spurning um líf og dauða hvort einhver prófar eiturlyf í fyrsta skipti, einn neysluskammt, og deyr. Það eru dæmi um það. Því miður eru allnokkur dæmi um það á Íslandi. Svoleiðis að já, þetta er spurning um líf og dauða og spurning um hvernig vænlegast er að bregðast við til að hjálpa fólki, til að hjálpa þeim sem þurfa á hjálpinni að halda. En eins og ég nefndi áðan er ekki alltaf svo að menn geri sér grein fyrir því sjálfir á meðan þeir eru djúpt sokknir í fíkniefnaneyslu, þótt þeir verði þakklátir fyrir það eftir á.

Að fullyrðingar um aukið aðgengi eigi ekki við rök að styðjast — ég hvet þá hæstv. ráðherra til að leggja fram þær rannsóknir sem sýna til að mynda fram á að verði neysluskammtar eiturlyfja lögleiddir aukist ekki líkurnar á að fólk neyti þessara eiturlyfja innan um annað fólk í samkvæmum. Það þarf ekki annað en heilbrigða skynsemi til að sjá að ef skilaboðin frá ríkisvaldinu eru þau að þetta sé heimilt þá muni menn verða mun ósmeykari en ella við að neyta þessara efna innan um aðra og bjóða þeim að prófa eða kannski taka einhverjir upp á því að biðja um að prófa enda búið að segja að þetta sé þannig séð allt í lagi, a.m.k. löglegt.