151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[18:13]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Fíkniefnavandinn er einn allra alvarlegasti vandi sem við erum að fást við í samfélaginu og hefur skaðleg áhrif á mjög marga neytendur, fíkla og alla aðstandendur. Í störfum mínum til áratuga með löggæslunni og í lögreglunni varð ég oft áþreifanlega var við að sú barátta sem fíklar heyja við sjúkdóm sinn er sannarlega barátta upp á líf og dauða, sannarlega. Allt of margir falla í þeirri baráttu. Hér er um alvarlegt mál að ræða, herra forseti.

Hér ræðum við um svokallaða afglæpavæðingu neysluskammta sem gengur efnislega út á það að heimila kaup og vörslu tiltekins magns af ávana- og fíkniefnum, sem er reyndar í frumvarpinu ekki skilgreint heldur er gert ráð fyrir því að það verði skilgreint betur í reglugerð.

Herra forseti. Ég tel þetta frumvarp vera illa undirbúið og vanhugsað og ég mun rökstyðja það hér í ræðu minni. Frumvarpið er algerlega úr öllu samhengi við þá aðstoð og þá hjálp sem veita ætti fíklum, fíkniefnaneytendum. Samfara frumvarpi eins og því sem við ræðum hér ættu einnig að vera úrræði fyrir lögreglu, hverjar hennar skyldur eða störf væru þegar hún hefur afskipti af fíklum yfir höfuð sem eru með skammta undir þessum refsimörkum. Það vantar algjörlega að mínu viti allt samhengi í þetta frumvarp, því er kastað hérna fram að gera það refsilaust að vera með neysluskammta af fíkniefnum og það fylgir þessu ekki neitt, ekki heilbrigðisþátturinn, löggæsluþátturinn, aðstoðarþátturinn eða ráðgjafarþátturinn. Það fylgir þessu ekki. Þetta er algerlega úr takti við allt það sem ætti að koma samfara þessu frumvarpi. Þess vegna get ég með réttu kallað þetta auglýsingamennsku. Þetta er fyrst og fremst auglýsingamennska, alveg sama hvað okkur finnst um þetta frumvarp eitt og sér. Þetta er auglýsingamennska vegna þess að frumvarpinu fylgir ekki neitt sem ætti að fylgja vönduðu frumvarpi í þessum dúr, aðstoðin, meðferðarúrræðin og ýmislegt annað. Það er ekki hér. Ég hef ekki séð það.

Ég kannaði örlítið þær umsagnir sem borist hafa í svipuðum málum. Í fyrsta lagi þegar þetta mál var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda fyrr á þessu ári kom t.d. ein umsögn frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sem kemur örlítið inn á þetta. Með leyfi forseta, les ég úr þeirri umsögn þar sem fjallað er um svokallað frummat:

„Enn fremur kemur fram í skjalinu“ — þ.e. frummatsskjalinu — „að ekki hafi verið gerð verkefnisáætlun.“

Þetta er nákvæmlega það sem ég er að tala um. Það fylgir þessu ekki neitt. Þetta er berstrípað, herra forseti, auglýsingamennska.

„Þá segir að áætlað sé að frumvarpið taki þegar gildi og ekki gert ráð fyrir að þeir sem verði fyrir áhrifum löggjafar þurfi langan tíma til undirbúnings/aðlögunar.“

Enginn undirbúningur. Allir aðilar sem koma að þessum málum; meðferðaraðilar, heilbrigðisþjónustan, löggæslan, eru ekki með í ráðgjöfinni. Þau eru ekkert með í undirbúningnum. Þau hafa skamman tíma til undirbúnings. Það á bara að vippa þessu í gegn, herra forseti. Þess vegna kalla ég þetta auglýsingamennsku.

Nú les ég áfram, herra forseti:

„Þær forsendur sem þurfi að vera fyrir hendi til að lagasetning beri árangur sé fækkun á fjölda sakamála vegna minni háttar fíkniefnabrota og að mælikvarði á árangur og útkomu sé fækkun á sektum/dómum vegna minni fíkniefnabrota. Jafnframt hafi ekki verið hugað að því að afla gagna til að meta árangur þegar þar að kemur.“

Svo er talað um það sem gerðist í janúar þegar þetta var kynnt:

„Skjalið ber með sér að takmörkuð vinna hafi farið fram til undirbúnings þessa viðamikla verkefnis“ — sem það er sannarlega, herra forseti — „sem lýtur ekki einungis að breytingum á lögum. Í Noregi hefur til dæmis farið fram gríðarlega umfangsmikil stefnumótunarvinna í tengslum endurskoðun á málefnum sem varða ávana- og fíkniefni þar í landi. Hinn 23. mars 2018 var til að mynda komið á fót tíu manna nefnd sem hafði með höndum það verkefni að yfirfara löggjöf og móta stefnu í þessum efnum. Nefndin skilaði skýrslu til heilbrigðisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis 19. desember 2019 og telur skýrslan rúmlega 400 blaðsíður. Nefndin samanstóð af þverfaglegum hópi sérfræðinga og haft var samráð við fjölda stofnana, samtaka og annarra hagsmunaaðila á meðan á þessari vinnu nefndarinnar stóð.“

Síðan segir, herra forseti:

„Meiri hluti nefndarinnar leggur til að varsla neysluskammta verði ekki lengur refsiverð en þó verði lögreglu, sem endranær, heimilt að stöðva notkun, verði hún vör við slíkt, og gera efnin upptæk.“ — Við förum aðra leið. — „Þess í stað er þeim aðilum sem teknir eru með neysluskammta gert skylt að sækja fund hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna þar sem þeim verður boðin fræðsla og aðstoð …“

Hvert er samráðið við sveitarfélögin? Hvert er samráðið við lögregluna samhliða þessu? En áfram segir hér:

„Samhliða þessu leggur nefndin til að forvarnastarf verði stóraukið og meðferðarúrræðum fjölgað. […] Til stóð, í kjölfar setningu laga nr. 48/2020, um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 (neyslurými), að skilgreina í reglugerð hvað teldist vera neysluskammtur sem notendum væri heimilt að bera á sér til notkunar í neyslurými. Reglugerðin hefur enn ekki litið dagsins ljós. Við samningu reglugerðarinnar þótti erfiðleikum bundið að skilgreina hvað teldist neysluskammtur og mun því ekki verða öðruvísi háttað þegar tekið verður til skoðunar við hvaða mörk beri að miða að því er varðar afglæpavæðingu neysluskammta.“

Það er enginn undirbúningur. Hann er í skötulíki, herra forseti — í skötulíki.

Loks les ég áfram:

„Verkefni sem þetta er, eins og áður segir, viðamikið. Hvetur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu því til þess að farið verði í heildstæða stefnumótunarvinnu, og bendir á þá vinnu sem norsk stjórnvöld hafa farið í gegnum undanfarin ár, til undirbúnings og heildarendurskoðunar á fyrirhuguðum breytingum áður en frumvarp um breytingu á lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, verður lagt fram.“

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Falleinkunn. En það á að vaða með þetta inn í þingið og keyra í gegn berstrípað frumvarp, óundirbúið, illa undirbúið.

Þá komum við að stærð skammta. Ég ætla alls ekki að gera það að meginefni ræðu minnar, bara að tala aðeins út frá eigin reynslu. Ef neytendur eru ákærðir t.d. fyrir að vera með efni til sölu, halda þeir því iðulega fram að það sé til eigin neyslu. Það er eiginlega alveg sama hvaða skammta er um að ræða, nema það sé gífurlegt magn, það er alltaf til eigin neyslu: 10 grömm — eigin neysla, 30 grömm — eigin neysla, 50 grömm eða 70 grömm — eigin neysla. Það er eiginlega alveg sama hvað, menn eru orðnir stórneytendur fyrr en varir og þola mikið og þetta er bara eðlilegt fyrir þá. Ef þeir eru teknir með 50 grömm segja þeir t.d.: Ég er að fara að nota þetta í kvöld, ég er að fara í partí, ég ætla líka að nota þetta á morgun. Svona er þetta nú. Þetta er raunveruleikinn, hv. Pírati Helgi Hrafn Gunnarsson. Þetta er raunveruleikinn. Hann er svona. Menn teygja sig alltaf eins langt og þeir geta, eðlilega. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við það.

Ég ætla aðeins að lesa úr umsögn lögreglustjórafélagsins, ekki við frumvarpið eins og það birtist í samráðsgáttinni eða við kynningu á því komandi frumvarpi heldur við frumvarp sem lagt var fram hér á síðasta þingi og var ættað úr hv. Píratasöfnuði. Ég les úr þessari umsögn frá Lögreglustjórafélagi Íslands, sem varðar ekki þetta frumvarp heldur það fyrra:

„Í frumvarpinu er ekki skilgreint það magn sem talist getur til einkanota, hver eigi að skilgreina það eða hvernig, né hvaða viðmið eigi að liggja til grundvallar. Þá er gert ráð fyrir að öll varsla neysluskammta af ávana- og fíkniefnum verði leyfð án þess að greinarmunur sé gerður á milli tegunda ávana- og fíkniefna. Þessi efni sem hér um ræðir hafa mjög mismunandi hættueiginleika, þá getur styrkleiki þeirra verið mjög mismunandi eftir því hvort um er að ræða „hreint“ efni eða blandað til neyslu. Úr 1 grammi af hreinu efni má í sumum tilvikum búa til tugi neysluskammta. Þá er „neysluskammtur“ fikniefna misstór eftir tegundum fíkniefna og hvort um stórnotendur efnanna er að ræða eða ekki. Þá kemur ekki fram í frumvarpinu hvort og þá hvaða afleiðingar það hafi að vera með fleiri en eina tegund fíkniefna í vörslu sinni. Séu menn með „neysluskammta“ af mörgum gerðum fíkniefna verður fljótt um mjög mikið magn fíkniefna að ræða.“

Þetta var úr umsögn lögreglustjórafélagsins við fyrra frumvarp og sýnir svolítið við hvaða vanda við eigum að etja þegar ákveða á hverjir þessir neysluskammtar eiga að vera, þegar ákveða á hversu mörg grömm o.s.frv. þar eiga að vera. Það fer eftir efnum, fer eftir neytendum o.s.frv. Svo er það líka löggæsluvandinn þegar menn eru teknir með kannski nokkrar tegundir. Hvað ber þá að gera ef þetta er allt saman neysluskammtar, því að efnið í heild gæti verið mjög mikið?

Enn og aftur vil ég benda á það, virðulegi forseti, að við horfum hér á frumvarp sem er algerlega vanbúið, því er kastað hérna fram sem einhverju draumaverkefni í þágu þess fólks sem sér þessa veröld með þeim sólgleraugum sem menn sjá þennan gífurlega vanda. Ég ætla ekki gera lítið úr honum, ég ætla alls ekki að gera lítið úr fíkniefnavandanum sem við erum að berjast við og höfum barist við í áratugi og lítið lát virðist vera á.

Það mætti auðvitað, eins og aðrir hv. ræðumenn hafa stundum komið að hér í ræðustól, skoða sem fyrsta skref að minnka refsinguna, lækka sektarbrotin, athuga hvað færist á sakaskrá o.s.frv. Þetta færist reyndar ekki á sakaskrá fyrr en við erum komin upp fyrir 100.000 kr. þannig að þessir litlu skammtar færast ekki á sakaskrá. Svo líka hvernig þetta er afmáð úr sakaskrá. Það hefur alltaf verið þyrnir í mínum augum sem fyrrverandi lögreglustjóra með þessa ungu krakka sem teknir eru með frekar lítið magn af fíkniefnum, sannarlega, að þetta eltir þá uppi árum saman. Svo þegar þessi krakkar eru orðnir ráðsettir borgarar og vilja læra flug eða fara í lögregluna þá er þetta þeim fjötur um fót og það er auðvitað afskaplega hvimleitt. Mér fyndist að við gerðum gott í því að reyna að snúa af þeirri braut að einhver bernskubrek elti fólk svona uppi, eins og þessi brot gera gjarnan og mörg önnur brot sem ég gæti líka haldið langar ræður um. Það mætti ræða það og ég væri fyrstur til að taka þátt í því.

Annað sem ég ætlaði ekki að ræða mikið er upptaka efna eða haldlagning. Lögreglunni yrði ekki heimilt að haldleggja þessi efni ef hún hefði afskipti af fólki sem væri með þessa skilgreindu neysluskammta. Það er auðvitað svolítið einkennilegt og ankannalegt að þessi efni eru hingað flutt hingað til lands eða framleidd hér á landi og sannarlega ólöglega, nema það séu bara neysluskammtarnir sjálfir sem koma, en einhvern tímann er þetta ólöglegt, þ.e. í framleiðslunni eða þegar magnið er flutt inn í stórum skömmtum, en lögreglunni er ekki heimil handlagning eða upptaka efnisins. — Ég er að verða búinn með tímann, ég er steinhissa, ég er varla hálfnaður. Ég held að ég þurfi að setja mig aftur á mælendaskrá. Ég hélt að ég hefði langan tíma og ég er varla byrjaður. En ég kem kannski í aðra ræðu.