151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

,fátækt á Íslandi.

[13:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Fátækt er ólíðandi og við þurfum að halda áfram að vinna gegn fátækt, það er viðvarandi verkefni. Ríkisstjórnin hefur ekki setið auðum höndum í þessum málum eins og hefur komið hér fram. Það skiptir máli að þrepaskipta skattkerfinu. Það gagnast best þeim láglaunuðu. Það skiptir máli að hafa hækkað atvinnuleysisbætur á síðustu þrem árum um 80.000 kr. Það skiptir máli að hafa lækkað kostnað sjúklinga á kjörtímabilinu og komugjald hefur verið lækkað í 500 kr. og frítt fyrir börn, aldraða og öryrkja. Við höfum samþykkt hlutdeildarlán sem gagnast þeim ungu og tekjulágu og auðveldar þeim að koma sér þaki yfir höfuðið. Við höfum samþykkt félagslegan viðbótarstuðning fyrir þann hóp aldraðra sem stendur höllustum fæti í almannatryggingakerfinu. Nú er átakið Hefjum störf í gangi. Það er mjög mikilvæg aðgerð í vegferð til að skapa störf og minnka atvinnuleysi. Eitt af stóru verkefnum samfélagsins á komandi misserum er að skapa góð störf um allt land og vinna gegn bölinu sem atvinnuleysið er og þá sérstaklega langtímaatvinnuleysi.

Þetta eru nokkur atriði sem ég nefni hérna sem hafa komið þeim til góða sem hafa lág laun og bágust hafa kjörin. En auðvitað er þetta, eins og ég nefndi í upphafi, viðvarandi verkefni og við megum alls ekki sofna á verðinum. Það er ekki líðandi að fólk líði skort í okkar auðuga þjóðfélagi. Þessi ríkisstjórn hefur verið á vaktinni og mun halda áfram að vera á vaktinni og við þurfum alltaf að reyna að gera betur og grípa viðkvæmustu hópana sem hafa lægstar tekjur og erfiða framfærslu því fátækt má ekki líðast í okkar samtíma. Við getum alltaf gert betur og við munum gera það.