151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

hjúskaparlög.

646. mál
[14:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og þakka fyrir baráttu hans og að hann bendi á þetta. Ég styð frumvarp hans að sjálfsögðu. Hér er litið til fleiri þátta — og frumvarpið hefur verið í undirbúningi í lengri tíma — eins og athugasemda sem hafa sérstaklega borist mér til eyrna varðandi lögskilnað hjóna þar sem hjónabandið er ekki viðurkennt vegna þess að í því eru einstaklingar af sama kyni sem hafa gift sig hér en hafa ekki fengið viðurkenningu á hjúskap sínum annars staðar og hafa því ekki getað fengið lögskilnað. Fleiri breytingar er búið að vinna til að koma með hér inn. Ég held að mjög tímabært sé, eins og hv. þingmaður segir, að frumvarpið komi fram, enda hafa ábendingar verið í þá átt. Auðvitað eru undanþágurnar kannski ekki ýkja margar ef við skoðum hvað þær hafa verið veittar til langs tíma. Og allar hafa þær verið til einstaklinga eldri en 16 ára og aðeins tvær til yngri en 17 ára. Það er auðvitað líka staðan að afar fáar undanþágur, af þeim sem þó hafa verið veittar í ráðuneytinu, hafa verið veittar yngri en 17 ára.

Ég kann kannski ekki alveg á því skil hvað hefur tekið svona langan tíma en málið hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma í ráðuneytinu, þ.e. að tiltaka í þessu frumvarpi öll þau atriði sem ég fór yfir í ræðu minni. Fyrsta Norðurlandaríkið gerði, að mig minnir, breytingar á þessum ákvæðum árið 2014. Auðvitað er verið að horfa til þeirra breytinga í sífellu; hvar við getum gert betur til að tryggja þau réttindi og þá vernd sem ég held að við séum að gera með því að stíga þessi skref og hætta með undanþáguheimildina og það er, eins og hv. þingmaður kom inn á, í algerum samhljómi við umsagnirnar sem hafa komið fram. En ég þarf kannski að fara yfir hin atriðin á eftir.