151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

698. mál
[16:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég legg áherslu á að við erum hér að gera lagabreytingu um aðgengi að séreignarsparnaði vegna alveg sérstakra aðstæðna. Það eru í rauninni þrjú kerfi sem varða séreignarsparnaðinn sem við erum með í gildi í dag. Það er þá í fyrsta lagi varanleg heimild, ekki tímabundin, fyrir fyrstuíbúðarkaupendur til að nýta séreignarsparnað til útborgunar á kaupum fyrstu íbúðar til að byggja upp eigið fé. Þetta held ég að hafi verið úrræði sem hefur tekist mjög vel. Það hafði þann sjálfstæða tilgang að styðja ungt fólk í því að koma sér þaki yfir höfuðið. Við skulum í öllu þessu samhengi líka muna að fasteignir eru ein helsta eign fyrir utan lífeyrissparnað fólks sem er að ljúka vinnualdri, fasteignir eru í þeim skilningi líka ákveðið sparnaðarform.

Í öðru lagi erum við með þessa heimild sem hefur verið í gildi undanfarin ár og er að renna sitt skeið um mitt sumar, og við erum að undirbúa framlengingu þess úrræðis, sem er heimild til að taka séreignarsparnað skattfrjálst út og ráðstafa inn á húsnæðislán. Þetta er heimild sem verið hefur í gildi undanfarin 6–7 ár með framlengingum. Með því úrræði hafa heimilin tekið út skattfrjálst rúmlega 80 milljarða til að bæta eignastöðu sína. Í því úrræði sem við erum með hér má velta upp um þessum spurningum. En ég held að þegar við horfum heilt yfir kerfið séum við ekki að höggva slík skörð í það að það sé eitthvað til að hafa áhyggjur af. Mér finnst miklu meiri ástæða til að leggja það í hendur fólks að taka sjálft ákvörðun um það hvort það vill greiða skattaúttekt séreignarsparnaðarins í dag til þess að bæta ráðstöfunartekjur sínar.