151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

loftslagsmál.

711. mál
[23:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum framsöguna og þetta mikilvæga frumvarp. Það skiptir mjög miklu máli að festa endapunktinn í lög, endapunktinn um kolefnishlutleysi til að ná markmiðum Parísarsamningsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Það sem mig langar að spyrja ráðherra að er kannski helst tvennt. Það skiptir máli upp á umræðuna hér í þingsal, það skiptir máli upp á það hvernig sérfræðingar fjalla um þessi mál, það skiptir máli upp á það hvernig almenningur skilur þau, að upplýsingarnar séu sem gagnsæjastar og að leiðin fram á við sé sem skýrust. Þá er staðreyndin einfaldlega sú að árið 2040 er dálítið langt í burtu. Það að horfa á markmiðið 0 árið 2040 segir kannski ekki nógu mikið um það hvað við þurfum að gera fyrir árið 2025, hvar við ætlum að vera nákvæmlega árið 2030 eða 2035. Mig langar því að spyrja ráðherra hvort til álita hafi komið að áfangaskipta þessari vegferð í átt að kolefnishlutleysi og þá kannski sérstaklega með því að lögfesta markmið fyrir árið 2030 um samdrátt í losun í samræmi við það sem skilað er til skrifstofu Parísarsamningsins.