151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[18:18]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir framsöguna. Ég sit í umhverfis- og samgöngunefnd með hv. þingmanni og við fórum vel yfir frumvarpið. Hv. þingmaður hefur rakið býsna vel hér þær umræður sem áttu sér stað, áhyggjur sem voru viðraðar vegna þess inngrips í skipulagsvald sem frumvarpið felur í sér, með býsna góðum rökum, það skal ekki horft fram hjá því, sérstaklega í ljósi þess áfalls sem stór hluti landsins varð fyrir um síðustu áramót í kjölfar óveðursins, en það breytir því ekki að inngrip í lögvarinn rétt sveitarfélaga er býsna stórt skref. Við lögðum töluverða vinnu í að koma þessu nefndaráliti, orðalaginu í kaflanum um raflínunefnd og raflínuskipulag, í þann farveg að það yrði alls ekki á nokkurn hátt undir nokkrum kringumstæðum litið á þetta sem fordæmisgefandi. En síðan hafa mál þróast sem ég er áhyggjufull yfir, svo ég segi það bara hreint út.

Hv. þingmaður nefndi að hæstv. umhverfisráðherra, sem fer með þetta mál, hefði lýst því sjálfur yfir að þetta væri ekki fordæmisgefandi, ef ég skildi hann rétt áðan. Þá langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður hafi heyrt orðaskipti hæstv. umhverfisráðherra við hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur hér í gærkvöldi þar sem var verið að ræða endurskoðaða landsskipulagsstefnu, þar sem ráðherra sjálfur kemur inn á þetta mál og segir, með leyfi forseta:

„Ég held að það sé kannski ekkert vitlaust að sjá hvernig það gerir sig, verði það frumvarp að lögum,“ — það frumvarp sem við ræðum hér nú — „þ.e. að hafa fyrirkomulagið með því móti.“

Þar er hæstv. ráðherra að vísa í inngrip í skipulagsrétt sveitarfélaga. (Forseti hringir.) Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður hefur fengið tækifæri til að fylgjast með þessu. Er hv. þingmaður sannfærður um að fyrirvarar sem við í umhverfis- og samgöngunefnd setjum í nefndaráliti okkar (Forseti hringir.) tryggi að hér séum við ekki að opna einhverja flóðgátt og hleypa nokkrum fílum, eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, inn á gólfið?