151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

rannsókn á meðferðarheimili.

[13:23]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til félags- og barnamálaráðherra, hann skyldi hafa athyglina á fundinum. Þann 19. febrúar sl. samþykkti ríkisstjórn tillögu hæstv. félags- og barnamálaráðherra um að rannsaka hvort konurnar sem vistaðar voru á Laugalandi, áður Varpholti, á árunum 1997–2007 hefðu sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi. Nýstofnaðri Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar var falið að sinna rannsókninni og ráðherrann hét því að rannsókninni yrði flýtt eins og kostur væri. Nú eru liðnir tveir mánuðir síðan þessi tillaga var samþykkt og það er lítið að frétta af umræddri rannsókn. Raunar hafa runnið tvær grímur á konurnar sem sátu fund með hæstv. ráðherra og töldu sig hafa vilyrði hans fyrir því að í þetta sinn yrði harðræðið sem þær máttu sæta rannsakað en ekki sópað undir teppi eins og síðast þegar mál þeirra kom upp á yfirborðið.

Fulltrúi kvennanna sendi ráðherra tölvupóst 25. mars sl. þar sem þær óskuðu eftir öðrum fundi með hæstv. ráðherra vegna þess að Gæða- og eftirlitsstofnun hafði upplýst fjölmiðla um að rannsóknin væri ekki í forgangi hjá stofnuninni og að niðurstöðu væri ekki að vænta á næstunni, enda yrði hún unnin meðfram öðrum verkefnum. Í umræddum tölvupósti óskuðu konurnar enn fremur eftir því að hæstv. ráðherra upplýsti þær m.a. um, með leyfi forseta:

„Hvert er markmið rannsóknarinnar og hvað verður um niðurstöður hennar, t.d. verða þær gerðar opinberar? Hverjir koma nákvæmlega að rannsókninni og hvaða tímaramma fá þau? Ert þú tilbúinn til að koma því svo fyrir að rannsóknin verði sett í forgang og lögð verði áhersla á að henni verði lokið svo fljótt sem auðið er?“

Þar sem umræddar konur hafa ekki fengið svar við þessum tölvupósti þremur vikum síðar þá vil ég gera spurningar þeirra að mínum hér og ég spyr hæstv. ráðherra: Mun hann koma því svo fyrir að þessi rannsókn verði sett í forgang?