151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

trúnaður um skýrslu.

[14:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér heyrist að það sé ástæða til að fara yfir verklagið sem hér er á ferðinni. Það verklag mótaðist eftir að núverandi ríkisendurskoðandi kom til starfa í góðu samstarfi við þingið, að breyta frá því fyrirkomulagi sem áður var, að Ríkisendurskoðun gerði skýrslur sínar opinberar áður en þær höfðu verið sendar þinginu, áður en þingmenn höfðu séð þær. Þetta var gagnrýnt. Hið nýja verklag gengur út á að Ríkisendurskoðun sendir forseta skýrslur, forseti sendir þær beina leið áfram til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og eftir að ríkisendurskoðandi hefur komið á fund nefndarinnar og gert grein fyrir skýrslunni þann dag eru þær gerðar opinberar. Þetta var af tillitssemi við Alþingi til þess að þingnefndin sem í hlut á hefði haft tækifæri til að kynna sér skýrsluna og bera upp spurningar við ríkisendurskoðanda áður en opinber umræða um hana hæfist. Það er mjög miður að þingið geti ekki virt trúnað sem er nauðsynlegur í, eftir atvikum, fáeina daga, eða þó að það séu tvær, þrjár vikur þegar páskahlé kemur við sögu, til að hægt sé að viðhalda þessu verklagi. Þingið er sjálfu sér verst ef það stendur sig ekki í stykkinu í þessu efni.