151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

fiskeldi.

265. mál
[15:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég get alveg haft skilning á því að það getur verið flókið að ná utan um mál í nefnd. En eins og það liggur fyrir í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar, sem eingöngu fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna skrifa undir, þá eru ekki gerðar miklar tilraunir til þess að vera til gagns í þeim efnum sem varða vinnu sjávarútvegsráðherra og reglugerðarsetninguna. Það er algerlega útilokað að rýna í það hver afstaða nefndarinnar er til mikilvægis undirliggjandi þátta. Svo ég taki niður í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lagt til að við mat tilboða gildi ákvæði 3. mgr. 4. gr. a laganna en þar segir að m.a. komi til skoðunar upphæð tilboðs, reynsla af fiskeldisstarfsemi, fjárhagslegur styrkur, mælikvarðar sem mæla hvernig tilboðsgjafi hefur stundað rekstur sinn og upplýsingar um það hvernig tilboðsgjafi hyggst stunda reksturinn, m.a. út frá umhverfissjónarmiðum.“

Þetta eru fimm atriði sem koma þar til skoðunar. Síðan segir hér áfram, með leyfi forseta:

„Við meðferð málsins fyrir nefndinni og í umsögnum var bent á að mikilvægt væri að litið væri til frumkvöðla á þeim svæðum sem frumvarpið tekur til.“

Undir það tekur meiri hluti nefndarinnar. Þar bætist sjötta matsatriðið við. Væri ekki skynsamlegt að hv. atvinnuveganefnd gerði a.m.k. einhverja tilraun til þess að senda leiðbeiningar til sjávarútvegsráðherra um það með hvaða hætti best yrði haldið á þessu? Eins og nefndarálitið liggur fyrir er engin tilraun gerð til slíks. Ég held að það væri til bóta, af því að við eigum nógan tíma eftir á þinginu, að málið yrði sent inn til nefndar milli 2. og 3. umr. og a.m.k. reynt að leiða þessi sjónarmið með einhverjum hætti í jörð þannig að leiðbeining þingsins sé skýrari til sjávarútvegsráðherra en kemur fram í nefndarálitinu.