151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[16:27]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Krónan okkar er minnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heiminum. Lítill gjaldmiðill eins og krónan okkar er eðli málsins samkvæmt viðkvæmari fyrir sveiflum en hinir. Stundum er sagt, henni til hróss, hve sveiflukennd hún er en það þykir alla jafna ekki endilega atriði til að hrósa fólki fyrir, að það sé mjög sveiflukennt og sveiflugjarnt. Geta hennar til sveiflu er fyrst og fremst í því fólgin að hana er hægt að fella og hún fellur yfirleitt og alla jafna á kostnað almennings. Sú staða dregur úr fyrirsjáanleika og ýtir undir háa vexti. Þær sveiflur sem okkar litla króna rammar inn eru erfiður veruleiki og neikvæður fyrir atvinnulíf hérlendis og heimilin öll í landinu og fólkið. Þess vegna tel ég brýnt að meiri þungi fari í þessa umræðu sem er algert grundvallarlífskjaramál og að við drögum að borðinu og inn í þetta samtal ungt fólk, ungu kynslóðina, sem virðist, ef marka má stefnu stjórnvalda, eiga að búa áfram við þann veruleika sem íslenski gjaldmiðillinn er. Stöðugur gjaldmiðill er grunnforsenda stöðugleika í efnahagsmálum og betri samkeppnisstöðu Íslands. Betri samkeppnisstaða Íslands er auðvitað og ætti að vera markmið og framtíðarmúsík fyrir okkur öll en hefur auðvitað ekki síst grundvallarþýðingu fyrir yngri kynslóðirnar sem koma.

Staða íslensku krónunnar hefur orðið sérstaklega áberandi í þeirri kreppu sem við erum að glíma við, kreppu sem á rót sína að rekja til heimsfaraldursins og sóttvarnaaðgerða vegna hans. Krónan hefur, eins og við sjáum öll, gefið verulega eftir þrátt fyrir mjög stóran gjaldeyrisvaraforða og þrátt fyrir takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum lífeyrissjóðanna. Þrátt fyrir þessar aðgerðir henni til varnar gefur hún eftir.

Vegna þess hversu mikilvægt það er að tryggja stöðugleika í gjaldeyrismálum leggjum við til núna að Ísland kanni möguleika á tvíhliða samningi við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum, í tengslum við EES-samninginn. Það myndi svara strax brýnni og aðkallandi þörf og halda opnum þeim möguleika að síðar verði skrefið stigið til fulls hvað aðild varðar. Það held ég að sé reyndar líka samtal sem unga fólkið, börnin, yngri kynslóðir, verðskulda að sé sett á dagskrá, samtalið um aðildina, umræða um Ísland í samfélagi þjóðanna, framtíðarsýnin um Ísland fyrir ungt fólk.

Tvíhliða samningur við Evrópusambandið núna um samstarf í gjaldeyrismálum gæti sótt fordæmi í gjaldeyrisfyrirkomulagið sem við þekkjum hjá Dönum, þar sem gengi dönsku krónunnar er haldið innan ákveðins ramma, þröngs bils gagnvart evrunni. Þannig er stöðugleiki gengisins tryggður með nánu samstarfi Seðlabanka Evrópu og Seðlabanka Danmerkur. Í fyrirhuguðu fyrirkomulagi Íslands og Evrópusambandsins væri krónunni gefið ákveðið svigrúm til að sveiflast á mjög þröngu bili gagnvart evrunni og stöðugt gengi yrði þannig sameiginlega varið af Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu. Afleiðingin yrði hinn eftirsóknarverði stöðugleiki sem okkur vantar svo sárlega. Ísland þyrfti í því sambandi sennilega, eða nánast án vafa, að undirgangast ákveðnar kröfur um ábyrga hagstjórn, hvað varðar reglur um ríkisfjármál og skuldir hins opinbera. Það hafa íslensk stjórnvöld eins og við vitum nú þegar gert með lögum um opinber fjármál þannig að viðbótarkostnaður af þessum skilyrðum ætti í sjálfu sér að vera hverfandi. Í því sambandi finnst mér líka mega nefna þær kröfur sem af þessu leiðir um ábyrga hagstjórn. Sú hugmyndafræði er auðvitað almennt hagsmunamál í sjálfu sér. Ábyrg hagstjórn, sem yrði krafa í þessu sambandi, er vitaskuld aldrei annað en eftirsóknarvert markmið, þ.e. eitthvað sem á ekki að óttast heldur að sækjast eftir.

Virðulegi forseti. Ávinningur íslensku þjóðarinnar, ávinningur íslensks almennings af samstarfi við Evrópusambandið að þessu leyti, í gjaldeyrismálum og gagnkvæmum gengisvörnum, yrði, vil ég leyfa mér að segja, gríðarlegur. Ávinningurinn yrði til þess fallinn að tryggja stöðugleika íslensku krónunnar, sem við erum eilíflega að ræða vegna þess að stöðugleiki er einfaldlega ekki hluti af veruleika okkar. Þetta yrði til þess fallið að tryggja stöðugleika íslensku krónunnar gagnvart evru og örva gagnkvæm viðskipti á innri markaði Evrópusambandsins. Í tillögunni er rakið að samþykkt hennar sé eitt mikilvægasta skref sem ríkisstjórnin gæti stigið til að stuðla að auknum hagvexti í kjölfar þeirra þrenginga sem heimsfaraldurinn hefur leitt til.

Virðulegi forseti. Í mínum huga er svarið við spurningunni hver ávinningurinn yrði einfaldlega það að þetta er eitt stærsta lífskjaramál fyrir allan almenning á landinu. Afleiðingin yrði lægri vextir og lægri kostnaður fyrir heimilin í landinu. Aftur myndi ég vilja nefna veruleika ungs fólks að þessu leyti. Afleiðingin yrði sú að það yrði ódýrara að eignast fasteign á Íslandi. Við þekkjum þá stöðu og þann veruleika að Íslendingar greiða fasteignir sínar dýru verði vegna gjaldmiðilsins. Afleiðingin yrði hagstæðari skilyrði til atvinnuuppbyggingar og útflutnings en við þurfum sárlega á atvinnuuppbyggingu að halda nú, en einnig til lengri tíma litið. Afleiðingin yrði sterkari staða Íslands á alþjóðamarkaði. Afleiðingin yrði meiri fjölbreytileiki í atvinnulífinu. Það er jafnframt atriði sem hér hefur verið töluvert til umfjöllunar og umræðu í þeirri stöðu sem er uppi að það verði og hljóti að vera framtíðarmúsík að verja atvinnulífið með því að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni. Afleiðingin af þessari leið myndi um leið styðja við nýsköpun.

Virðulegi forseti. Við erum hér að leggja á borð og leggja til umræðu ákveðna grundvallarspurningu, mál sem er alveg ljóst í mínum huga að er hagsmunamál fyrir allan almenning í landinu og þetta mál þarf að ræða. Það þarf líka að rökstyðja það að ætla að skila auðu í þessu samtali í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undir, að neita að ræða svona stórt viðfangsefni, sem er nú viðkvæði sumra inni í þessum sal, að leita allra leiða til að forðast samtalið, því að það þarf líka að rökstyðja það hvers vegna á ekki að fara þessa leið. Í mínum huga er það reyndar alveg ljóst að sönnunarbyrðin er á þeim sem vilja halda óbreyttu plani. Ávinningurinn er í mínum huga nefnilega alveg augljós og almenningur verðskuldar að þetta mál fái tilhlýðilega umfjöllun og sé rætt og sé á dagskrá. Röksemdirnar hníga allar í eina átt að mínu mati og ég hlakka til þeirrar umræðu sem fram undan er.