151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[17:55]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, en á köflum og trúði ég eiginlega varla mínum eigin eyrum. Hefur hv. þingmaður, sem er í Evrópuflokki sem leggur mikla áherslu á aðild að Evrópusambandinu, ekki frétt af því að Þjóðverjar og Frakkar eru áhrifamestir í hinum evrópska seðlabanka? Hefur hann ekki frétt af því að evran er málamiðlun við Þjóðverja? Hún er eins konar framhald af þýska markinu. Hefur hv. þingmaður ekki frétt af þessu? Ætlar hv. þingmaður virkilega að mótmæla því hér í ræðustól Alþingis að Þjóðverjar og Frakkar séu áhrifamestir innan Seðlabanka Evrópu? Og hvað á það að þýða, leyfi ég mér að spyrja, herra forseti, að fara að vísa til samskipta Þjóðverja og Frakka í gegnum aldirnar? Hvaða þýðingu hefur það inn í þessa umræðu? Evrópusambandið var stofnað, eins og menn vita, af sex ríkjum, hét þá Kola- og stálbandalag Evrópu, það var viðskiptalegs eðlis. Auðvitað hafa menn verið að leitast við að læra af sárri reynslu í samskiptum þessara aðila í gegnum aldirnar. Nú hefur á þessu stóra evrópska taflborði mönnum verið stillt upp með þeim hætti að það eru Þjóðverjar og Frakkar sem eru fyrirferðarmestir og ráða mestu um málefni Evrópusambandsins og hafa farið með evruna. Nýr kanslari er varla tekin við í Þýskalandi áður en hann fer til Frakklands að heimsækja forsetann og nýr forseti er varla (Forseti hringir.) búinn að taka við embætti sínu áður en hann fer til Berlínar. (Forseti hringir.) Þetta þekkja menn og ég hefði haldið (Forseti hringir.) að hv. þingmaður hefði kannski frétt af þessu.