151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:36]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er svolítið umhugsunarefni hvernig þingmenn Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins nálgast þessa tillögu þegar hún felur nákvæmlega í sér það — af því að hv. þm. Sigríður Á. Andersen talar um að ekki sé minnst á sjávarútveginn á nægilega skýran hátt og ekki sé verið að gera hitt og gera — en það er nákvæmlega það sem tillagan felur í sér, að forsætisráðherra skipi nefnd, að höfðu samráði við þingflokka, sem fari einmitt í það að stýra undirbúningsvinnu í samstarfi við einstök ráðuneyti. Það má alveg segja að með tillögunni sé það að gerast að við verðum að horfast í augu við það að meiri umræðu og meiri fræðslu vantar. Var því ekki sinnt nægilega vel á sínum tíma? Það má alveg tala og deila um hvort það hafi verið gert. Við erum í rauninni að taka hænuskref í þessu máli, ýta málinu áfram til að þjóðin geti á endanum haft áhrif og ákvörðunarrétt um það hvort hún vilji, á grunni undirbúningsvinnunnar sem allir flokkar hafa komið að, sem öll ráðuneyti, fagráðuneytin sem og önnur hafa komið að, og geti á þeim forsendum ákveðið hvort rétt sé að fara áfram með aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Ég hef ekki enn fengið svör við því hvað er svona hættulegt við það.

Ég tek hins vegar eftir því að sjávarútveginum er oft beitt þegar á að hræða fólk til hlýðni og andstöðu við Evrópusambandið. Það var oft sagt: Ja, allir vondu útlendingarnir koma og veiða í okkar lögsögu. Það er bara ekkert sem lítur út fyrir að svo verði. Samkvæmt reglum Evrópusambandsins um hlutfallslegan stöðugleika þá er það ekki inni í myndinni af því að engin erlend skip hafa verið hér á Íslandsmiðum svo áratugum skiptir og það er það sem skiptir máli.

Ég velti fyrir mér: Af hverju er alltaf verið að reyna að koma einhverjum ranghugmyndum inn í huga fólks um að þetta verði með einhverjum öðrum hætti? Af hverju er það? Ég kem síðan að seinna svarinu á eftir.