151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

breytingar á fyrirkomulagi skimunar fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

[14:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Umræður um heilbrigðisþjónustu eru alltaf mikilvægar og umræða um heilbrigðisþjónustu kvenna er gríðarlega mikilvæg. Ég vil þakka hæstv. ráðherra, sem hefur sýnt heilsu kvenna gríðarlegan áhuga í starfi sínu sem ráðherra. Það skiptir máli því að við vitum að konur hafa ekki alltaf fengið þá þjónustu sem þær þurfa og að því miður hefur stundum verið brugðist öðruvísi við þeirra málum innan heilbrigðiskerfisins. Það er mikilvægt að ræða og það er mikilvægt að taka á því.

Hæstv. ráðherra fór yfir það í ræðu sinni hver aðdragandinn að breytingum á skipulagi krabbameinsskimana hefði verið. Ég tel að sú áhersla sem lögð hefur verið á að færa skipulagið nær því sem mælt er fyrir í alþjóðlegum skimunarleiðbeiningum sé mikilvæg. Að við þurfum að ná betur til kvenna og auka þátttöku þeirra í skimunum. Ég tek hins vegar undir það að biðtíminn eftir svörum hefur verið of langur og ég trúi því og treysti að verið sé að vinna í því að stytta hann og bæta þann feril málsins. Að því sögðu tel ég einnig að með því að breyta fyrirkomulaginu og gera þessar skimanir að hluta af hinni opinberu heilbrigðisþjónustu sé verið að stíga mjög mikilvæg skref vegna þess að heilsa kvenna á ekki að vera bútasaumur heldur þarf hún einmitt að vera samfella. (Forseti hringir.) Þar tel ég að aðkoma hins opinbera og það utanumhald skipti gríðarlegu máli.