151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[16:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni hér. Það er óhætt að segja að Ísland sé mjög virkur þátttakandi í Evrópusamstarfi á flestum sviðum samfélagsins að undanskildum þeim málum helst sem eru veigamikil í íslensku samfélagi og þá á ég sérstaklega við sjávarútveginn, landbúnaðinn og gjaldmiðilsmálin. Þegar vel gengur í efnahagslífinu hafa fáir áhuga á Evrópumálum en þegar illa árar fara sumir að velta fyrir sér kostum aðildar að Evrópusambandinu, eins og Evrópusambandið sé best til þess fallið að leysa öll heimsins vandamál. Þeir hinir sömu hafa væntanlega tekið eftir því hversu aftarlega á merinni sambandið hefur verið í því að takast á við veirufaraldurinn, svo að dæmi sé tekið. Við þekkjum öll bóluefnaklúðrið svokallaða og Ísland átti aldrei að hengja sig við misheppnaða bólusetningaráætlun Evrópusambandsins. Vegna seinagangs og rangra ákvarðana gekk bólusetningin mun hægar fyrir sig í ríkjum Evrópusambandsins en gert var ráð fyrir og veirufaraldurinn hefur því ráðið ríkjum lengur en ella.

Það er óneitanlega áhugavert að velta því fyrir sér hvað það er sem rekur Viðreisn í þá vegferð sem felst í þessari þingsályktunartillögu. Hvað er það sem er svona eftirsóknarvert í hugum þingmanna Viðreisnar þegar kemur að Evrópusambandinu? Er það sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins sem er beinlínis andstæð hagsmunum Íslendinga? Er það eftirsóknarvert af hálfu Viðreisnar að færa forræðið yfir sjávarútveginum úr landi og til Evrópusambandsins? Er það eftirsóknarvert af hálfu Viðreisnar að tapa yfirráðum yfir einni mikilvægustu auðlind okkar, að við hefðum ekkert meira með hana að gera? Það er borðleggjandi, herra forseti, hvernig færi fyrir sjávarútveginum okkar ef til aðildar kæmi. Og hvað með fullveldisskerðinguna, er hún eftirsóknarverð í augum þingmanna Viðreisnar, að þjóðin verði svipt forræði yfir helstu auðlindum sínum?

Það er eðli baráttumanna að leggja áherslu á það sem skiptir máli fyrir þeirra málstað hverju sinni og reyna að gera sem minnst úr málflutningi þeirra sem eru á öndverðri skoðun ef vera kynni að málstaður andstæðinganna hefði einhverja kosti í för með sér. Lítum á nokkrar staðreyndir í þessu máli, fái Viðreisn að ráða för í þessum efnum. Hagsmunir íslensks sjávarútvegs verða fyrir borð bornir. Forræði yfir sjávarauðlindinni myndi hverfa til Brussel. Fiskveiðifloti Evrópusambandsins myndi geta veitt í íslenskri lögsögu, ákvörðun hámarksafla á Íslandsmiðum yrði endanlega tekin í ráðherraráði Evrópusambandsins, yfirráð yfir orkuauðlindum færðust til Brussel og lög og reglur myndu streyma til okkar sem aldrei fyrr. Og við skulum ekki gleyma samningsfrelsinu í þessu máli. Skiptir það Viðreisn engu máli? Aðild að Evrópusambandinu þýðir einfaldlega að allir viðskiptasamningar við önnur ríki þurfa að fara í gegnum Evrópusambandið. Við myndum sem sagt glata frelsinu til að gera sjálf viðskiptasamninga við önnur ríki, samninga sem hafa fært okkur Íslendingum og íslenskri þjóð mikla velferð. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins myndi sjá um alla viðskiptasamninga við önnur ríki. Ísland myndi missa samningsforræði hvað varðar viðskiptasamninga við önnur ríki. Við inngöngu myndi Ísland afsala sér frelsi til samninga við önnur ríki sem væri algerlega óviðunandi niðurstaða.

Það felast mikil tækifæri í fríverslunarsamningum fyrir litla þjóð eins og Íslendinga. Bandaríkin lýstu því t.d. yfir á síðasta ári að þau hefðu áhuga á að gera fríverslunarsamning við Ísland. Það voru mikil tíðindi en aðild að Evrópusambandinu myndi koma í veg fyrir slíka samninga og aðild að Evrópusambandinu er ekki ókeypis. Mikill kostnaður fylgir aðild og Ísland myndi líklega þurfa að borga með sér enda landið vel stætt ríki í evrópskum samanburði. Smæð þjóðarinnar myndi síðan þýða áhrifaleysi innan sambandsins, það er bara staðreynd. Ein stærsta ástæða þess að Ísland hefur valið að standa utan Evrópusambandsins snýr að sjónarmiðum um fullveldi og sjálfstæði landsins. Ísland mun áfram verða sjálfstæð þjóð en hún mun ekki ráða sér fyllilega sjálf þegar kemur að fullveldinu. Þrátt fyrir að Íslendingar séu ekki á einu máli um það hvort Ísland skuli ganga í Evrópusambandið hafa þeir alltaf litið á sig sem evrópska þjóð og haldið evrópskri menningarhefð sinni á lofti. Alþjóðasamvinna er að sjálfsögðu af hinu góða. Hún felur í sér ávinning fyrir okkur Íslendinga.

Það er ekki svo að Ísland standi utan alþjóðasamvinnu í dag, síður en svo. Það vita allir. Það er eðlilegt að við spyrjum okkur spurninga á borð við hverjir framtíðarmöguleikar okkar sem sjálfstæðrar þjóðar séu og hvar tækifærin liggi. Eru einhver vandamál sem Ísland gæti staðið frammi fyrir í nánustu framtíð utan Evrópusambandsins? Telur Viðreisn virkilega að embættismenn í Brussel geti valið það að verja okkar hagsmuni og að þeir séu best til þess fallnir að taka ákvarðanir er varða innanlandsmál okkar á Íslandi? Telur Viðreisn að þessir aðilar hafi þekkingu og skilning á sérstökum aðstæðum hérlendis, m.a. vegna einangrunar og ólíkra lífskjara sem fylgja því að búa á eyju, sem er jú þó nokkuð langt frá meginlandi Evrópu? Ísland myndi síðan glíma við valdaleysi innan Evrópusambandsins, ég held að það sjái allir. Sökum smæðar þjóðarinnar yrðu fulltrúar á Evrópuþinginu afskaplega fáir. Ísland yrði minnsta aðildarríkið og því fylgja litlir möguleikar til áhrifa innan svo stórrar stofnunar sem stýrt er af stórum og valdamiklum ríkjum.

Víkjum aðeins í lokin að norðurslóðum í þessu sambandi. Áhugi alþjóðasamfélagsins á norðurslóðum eykst ár frá ári. Norðurslóðir hafa orðið sífellt mikilvægari í augum margra ríkja, ekki síst vegna hlýnunar loftslags og bráðnunar jökla á heimskautinu. Snýr það ekki síst að greiðari aðgangi að verðmætum náttúruauðlindum og hafsvæði sem er að opnast. Nýjar siglingaleiðir verða til með aukna möguleika til flutningsleiða og mikilvægi norðurslóða fyrir íslenska hagsmuni fer mjög vaxandi. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, sagði fyrir skömmu að fundur Norðurskautsráðsins, sem haldinn verður hér á landi í næsta mánuði, verði einn viðamesti og mikilvægasti fundur sem hefur verið haldinn á Íslandi. Siglingaleiðir munu opnast í náinni framtíð um norðurslóðir og auka þar með möguleika Íslands á viðskiptum við fjarlæg lönd og opna á margs konar möguleika fyrir okkur þar sem Ísland væri orðið miðsvæðis á siglingaleið milli Asíu og Norður-Ameríku sem gæti haft í för með sér margs konar tækifæri. Með aðild að Evrópusambandinu gæti Ísland verið að fórna framtíðarmöguleikum sínum varðandi norðurslóðir.

Atvinnuleysi hefur verið allt of hátt hér á landi undanfarna mánuði. Við Íslendingar erum ekki vön miklu atvinnuleysi hér á landi en við þekkjum ástæður þess núna. Veirufaraldurinn hefur svo sannarlega tekið sinn toll en við munum ná okkur aftur á strik. Eitt af einkennum Evrópusambandsins er hátt atvinnuleysi, ekki bara tímabundið heldur áratug eftir áratug. Evrópusambandið mun ekki færa Íslendingum störf ef einhverjir telja svo vera. Ísland á að standa utan Evrópusambandsins en eiga eftir sem áður mikil og góð samskipti við Evrópusambandið, ekki síst í gegnum EES-samninginn. Við eigum jafnframt að nýta okkar samningsfrelsi til viðskiptasamninga til hins ýtrasta, hagsæld íslensku þjóðarinnar eykst með tilkomu fríverslunarsamninga. EFTA- og EES-samningarnir eru mikilvægustu fríverslunarsamningar sem Ísland hefur gert og hafa þeir haft mest áhrif á íslensku þjóðina. Tvíhliða samningar við Kína og Færeyjar eru að sjálfsögðu mikilvægir. Í Kína er ört vaxandi markaður sem skapar mikil tækifæri fyrir íslenskt efnahagslíf. Við eigum að horfa meira til Asíu sem er ört vaxandi markaður. Bandaríkin hafa sýnt vilja til að gera fríverslunarsamning við okkur eins og áður segir (Forseti hringir.) og er mikilvægt að við fylgjum því eftir. Að sama skapi þurfum við að ná góðum viðskiptasamningum til frambúðar við okkar mikilvægasta markaðssvæði, (Forseti hringir.) Bretland, sem er nú gengið úr Evrópusambandinu.

Að lokum, herra forseti: Fríverslunarsamningar skapa aukin tækifæri fyrir íslenskt efnahagslíf og eru í raun undirstaða fyrir velferð þjóðarinnar. Það á að vera okkar forgangsmál.