151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:02]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður, sem er þingreyndur maður, spyr: Af hverju rann þetta út í sandinn? Stutta svarið er: Ég held að kattasmölun þáverandi forsætisráðherra hafi bara einfaldlega tekið mjög mikinn tíma. Við sáum að forystuflokkurinn sem nú er í ríkisstjórn hélt sig ekki við það sem samkomulag var um. Ég held að það hafi verið afar erfitt ástand og það eru aðrir hér í húsinu sem þekkja þá sögu betur. En ég held að það sé engin tilviljun að við erum að ræða þetta núna. Það er kannski einn þráðurinn hjá ríkisstjórninni sem við höfum, ríkisstjórn ákveðinna íhaldsflokka, að ekki megi hrófla við neinu. Það má ekki halda áfram með málið. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ef við hefðum farið í þjóðaratkvæðagreiðsluna sem við töluðum fyrir, ég var flutningsmaður þeirrar tillögu að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu strax 2009, hefðum við ekki upplifað það öngstræti sem málið var komið í á milli þáverandi stjórnarflokka og hefur verið í síðan þá. Ég viðurkenni það alveg heiðarlega að þess vegna erum við m.a. að fara þá leið til að reyna að taka málið út úr þessari klemmu, út úr þessu öngstræti, hvort sem það var vinstri stjórnin á sínum tíma sem skóp það öngþveiti og síðan til viðbótar stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, til að reyna að klippa það út úr þessu öngstræti. Ég vil minna hv. þingmann á að í stjórnarsáttmála hinnar skammlífu ríkisstjórnar 2017, sem við studdum bæði, var einmitt ákvæði um Evrópumálin. Þá hefði þinginu alla vega hlotnast sú reisn (Forseti hringir.) að tala um málið og greiða atkvæði um málið. Það felur í sér ákveðna (Forseti hringir.) viðurkenningu á því að losa þurfti um þá klemmu sem málið var komið í.