151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

barnalög.

204. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum sem fjallar um kynrænt sjálfræði. Til upprifjunar þá eru með því frumvarpi lagðar til þær breytingar á barnalögum að bætt verði við nýjum ákvæðum sem mæla fyrir um foreldrastöðu trans foreldra og einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Breytingarnar miða að því að tryggja réttindi foreldra sem breytt hafa skráningu kyns og gera þá jafnsetta öðrum foreldrum.

Ég vil fara aðeins yfir umfjöllun nefndarinnar en við meðferð málsins var gagnrýnt að ekki væri gengið lengra í að breyta barnalögum þannig að þau samræmist veruleika hinsegin foreldra og fjölskyldna þeirra sem og að barnalögin yrðu ekki gerð kynhlutlaus. Bent var á að æskilegra hefði verið að leggja til þær breytingar að einstaklingur sem elur barn ásamt sambúðar- eða hjúskaparmaka hans yrði sjálfkrafa skráður foreldri barnsins óháð barneignarleiðum og kyni, kynvitund eða kynhneigð viðkomandi. Í þessu samhengi var jafnframt bent á að með frumvarpinu væri viðhaldið mismunandi stöðu annars vegar gagnkynja para og hins vegar samkynja para þegar notað væri gjafasæði við tæknifrjóvgun. Í fyrrnefnda tilvikinu gangi pater est-reglan framar rétti barns til að þekkja líffræðilegan uppruna sinn en hin nýja og kynhlutlausa parens est-regla gildi um foreldraviðurkenningu þeirra sem hafa breytt kynskráningu sinni en reglan eigi einungis við ef upphafleg kynskráning útiloki ekki líffræðileg tengsl makans við barnið.

Enn fremur var rætt um stöðu trans karla en fram komu sjónarmið um að með frumvarpinu væri staða þeirra þrengd frá því sem verið hefur. Samkvæmt frumvarpinu þyrfti trans karl, sem eignast barn með konu sinni, að gera sérstaklega grein fyrir notkun á gjafasæði en samkvæmt núgildandi lögum sé ekki gerð krafa um slíkt. Eðlilegra væri að trans feður fengju að njóta jafnra réttinda á við aðra karla og að pater est-reglan fengi þá einnig að gilda í tilviki þeirra, eins og hefði verið raunin undanfarin ár án vandræða.

Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar áréttar mikilvægi þess að með frumvarpi þessu er miðað að því að tryggja réttindi foreldra sem breytt hafa skráningu kyns og gera þá jafnsetta öðrum foreldrum. Með frumvarpinu er ekki verið að gera grundvallarbreytingar á undirstöðusjónarmiðum um foreldrastöðu. Meiri hlutinn tekur fram að sérreglur barnalaga og frumvarpsins um foreldrastöðu eftir tæknifrjóvgun byggjast ekki á pater est-reglu heldur á umsókn og samþykki þeirra aðila sem óska eftir tæknifrjóvgun og á því að tæknifrjóvgun hafi farið fram samkvæmt þeim reglum sem mælt er fyrir um í lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996. Þetta á við óháð kyni eða kynhneigð og því hvort um sæðis- eða egggjöf er að ræða. Grundvallarskilyrði er að tæknifrjóvgun fari fram samkvæmt lögum þar um til þess m.a. að tryggja vitneskju um uppruna kynfrumna og réttarstöðu þeirra sem leggja þær til. Með frumvarpinu er ekki verið að breyta stöðu trans karla. Samkvæmt gildandi lögum á pater est-reglan ekki við um trans karl sem eignast barn með konu sinni og er ekki gert ráð fyrir breytingum á því í frumvarpinu. Foreldrastaða barns byggist því sem endranær á upplýsingum um hvort tæknifrjóvgun hafi átt sér stað með formlegum hætti.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að starfshópur, sem var falið að gera tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar væru til að tryggja réttindi trans fólks og intersex fólks, taldi rétt að stefnt yrði að því með tímanum að barnalög og fleiri lög yrðu kynhlutlaus. Í skýrslu sama starfshóps frá því í september árið 2020 kemur fram að ástæða sé til þess að huga að heildarendurskoðun barnalaga með það að markmiði að endurskoða meginreglur þeirra og forsendur með hliðsjón af breyttum veruleika fólks í nútímasamfélagi. Bent er á að áhrif margbreytilegs fjölskylduforms og framfara í vísindum þurfi að vega og meta með hliðsjón af rétti barna til að þekkja foreldra sína, samanber 1. mgr. 7. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 1. gr. a barnalaga, og að slík endurskoðun ætti að hafa jafnræðissjónarmið að leiðarljósi og gæti m.a. falið í sér að barnalög yrðu gerð kynhlutlaus.

Meiri hlutinn tekur undir það og telur mikilvægt að tryggja réttindi þeirra sem hafa breytt kynskráningu sinni og þeirra sem hafa hlutlausa kynskráningu í samræmi við lög um kynrænt sjálfræði. Meiri hlutinn telur að vinna starfshópsins hafi varpað ljósi á nauðsyn þess að barnalögin verði endurskoðuð í heild sinni, og að vinna hans hafi verið í takt við þau sjónarmið um stöðu hinsegin foreldra sem komið hafa fram við meðferð málsins. Í þessu samhengi er bent á að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar lagði fram breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, sem var 11. mál á yfirstandandi þingi, þar sem lagt er til að barnalögin sæti heildarendurskoðun innan þriggja ára frá samþykkt þess frumvarps. Í nefndaráliti meiri hlutans um frumvarpið kemur fram að taka þurfi barnalögin til endurskoðunar m.a. í ljósi laga um kynrænt sjálfræði. Meiri hlutinn leggur áherslu á að það getur falið í sér að barnalög verði gerð kynhlutlaus sem geti einnig leitt til þess að fleiri lög verði gerð kynhlutlaus samhliða slíkri endurskoðun. Meiri hlutinn beinir því til dómsmálaráðuneytisins að við heildarendurskoðun barnalaga verði framangreind atriði tekin til skoðunar. Þessu er mikilvægt að halda til haga.

Fyrir nefndinni var gagnrýnt að halda ætti utan um breytta kynskráningu fólks, og þar með upplýsingar um líffræðileg einkenni og ætlaða frjósemi trans einstaklinga, til að reyna að skera úr um erfðafræðilegan uppruna barna. Þá var gagnrýnt að upplýsingum yrði haldið til haga af Þjóðskrá Íslands svo að börn gætu nálgast þær síðar.

Meiri hlutinn bendir á að í þjóðskrá er ávallt skráð kyn, annars vegar samkvæmt tilkynningu og hins vegar, ef um er að ræða erlenda ríkisborgara, samkvæmt vegabréfi eða fæðingarvottorði. Sú skráning er upphafleg kynskráning. Með lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, er heimild til að breyta skráningu kyns. Allar breytingar eru skráðar í þjóðskrá og með því að skoða breytingasögu er hægt að nálgast breytta kynskráningu. Meiri hlutinn áréttar að í þjóðskrá er ekki skráð hvort barn er getið með tæknifrjóvgun en skráning á venslum barns og foreldris getur byggst á gögnum um tæknifrjóvgun.

Ég ætla að lokum að koma inn á breytingartillögur sem við í meiri hlutanum leggjum til. Við meðferð málsins var bent á að leiðrétta þyrfti tilvísun í 7. mgr. 6. gr. frumvarpsins, þ.e. að í stað þess að vísa til 8. mgr. 6. gr. laganna í síðara skipti eigi að vísa til 7. mgr. þess ákvæðis. Tilvitnað ákvæði 7. mgr. 6. gr. laganna fjallar um þrjá aðila; sæðisgjafa, eiginkonu eða sambúðarkonu hans og sæðisþega. Í því samhengi var bent á að í sérákvæði um fólk sem breytt hefur kynskráningu sinni verður að gera ráð fyrir að hver og einn þessara aðila geti haft breytta kynskráningu. Í 7. mgr. 6. gr. frumvarpsins vantar þess vegna ákvæði um sæðisþega sem breytt hefur kynskráningu sinni. Ákvæðið gildir því ekki ef sæðisgjafi gefur sæði í þeim tilgangi að það verði notað við tæknifrjóvgun á trans manni eða einstaklingi með hlutlausa kynskráningu sem ekki sé maki sæðisgjafa. Samkvæmt því kynni sæðisgjafi að verða dæmdur faðir þess barns sem þannig sé getið með sæði hans.

Meiri hlutinn bendir á að sæðisþegi er alltaf sá sem elur barnið. Ákvæði 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins, og eftir atvikum 8. mgr. sama ákvæðis, er um sæðisþega sem breytt hefur kynskráningu sinni. Þá eru ákvæði 2. og 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins um maka sem breytt hefur kynskráningu sinni, þ.e. maka sæðisþegans. Meiri hlutinn telur hins vegar mikilvægt að taka af öll tvímæli um réttarstöðu sæðisgjafans og maka hans án tillits til kynskráningar þess sem þiggur sæðið. Meiri hlutinn leggur því til breytingar á 6. mgr. 6. gr. laganna þannig að í stað þess að vísa til sæðisþega sem „annarrar konu“ verði vísað til sæðisþega sem „annars einstaklings“.

Að auki leggur meiri hlutinn til minni háttar orðalagsbreytingar til leiðréttingar og lagfæringar ásamt breytingum sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins. Ég ætla ekki að rekja þær í ræðu minni en áhugasamir geta kynnt sér þær breytingar sem eru meðfylgjandi í þessu nefndaráliti.

Undir nefndarálitið skrifar sú sem hér stendur, Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Guðmundur Andri Thorsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson, Olga Margrét Cilia, með fyrirvara, sem er prentaður með frumvarpinu, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, með fyrirvara. Ég á allt eins von á því að hv. þingmenn geri hér grein fyrir fyrirvörum sínum hér í ræðum.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og gert grein fyrir þessu nefndaráliti og breytingartillögum með því og vonast til þess að frumvarpið verði samþykkt hér eftir þessa umfjöllun.