151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef þær eru svona rosalega góðar, þessar upplýsingar sem fólk fær — og ég tek það aftur fram að þetta er ekki Útlendingastofnun sem veitir fólki dvalarleyfi og sér ekki um það heldur snýr þetta að því að veita betri upplýsingar. Við gerð frumvarpsins var niðurstaðan að það þyrfti betri upplýsingagjöf. Ég hef t.d. verið á öðrum fundi með Þroskahjálp þar sem þau tóku fram að upplýsingagjöf væri sérstaklega ábótavant, þ.e. um þarfir barna og jafnvel fullorðinna sem væru að leita hér eftir vernd og fengju dvalarleyfi en væru með ákveðnar fatlanir eða þroskahamlanir. Þessar upplýsingar vantaði. Þegar fólkið kæmi út í samfélagið þá hlytist meiri kostnaður af því að hafa ekki veitt þessar upplýsingar og geta fundið tilhlýðandi þjónustu. Þetta snýr að því að þegar við erum búin að taka þetta fólk til okkar — þetta snýr ekkert að því hvort við ætlum að fjölga hér innflytjendum, það er annað batterí sem sér um það. Það er bara ekki til umræðu í þessu frumvarpi. Þetta snýst um það að við erum búin að taka til okkar fólk og við ætlum bara að veita því þá þjónustu sem hér er í boði. Eigum við að stoppa þjónustu til þessa fólks? Er það lausnin að hætta þjónustu við þá innflytjendur sem hingað koma? Til hvers? Til að losna við þá aftur?