151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Úti er sól. Fólk er að viðra sig á Austurvelli með börnin sín og fær sér ís. Hvað þýðir það? Þá er lóan komin og það þýðir líka að Miðflokkurinn er kominn í málþóf um óskiljanlega hluti, kominn í óskiljanlegan málflutning um eitthvert allt annað mál en er á dagskrá þingsins. Þetta mál snýst ekki um stefnuna í innflytjendamálum, þetta snýst bara ekkert um það. Við erum að bæta þjónustuna við það fólk sem þegar er komið til landsins. Þetta segir ekkert til um neinn fjölda, að við séum að takmarka fjöldann eða að við ætlum að fjölga útlendingum, heldur ætlum við bara að bæta upplýsingaþjónustu við þetta fólk. Þegar hv. þingmaður talar um kostnað langar mig til að spyrja: Hvað telur hv. þingmaður að það kosti að veita því fólki ekki upplýsingar sem kemur hingað og talar erlent tungumál, fólki sem getur ekki lesið sér að fullu til um aðgengið að þeirri þjónustu sem er í boði? Hvað kostar það? Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera með það á hreinu. Hvað er þingmaðurinn að segja við 17% íbúa á Vestfjörðum, ef við ætlum bara að hafa hreinstefnu í kynþætti eða fæðingarþjóðerni? Við erum 7.000 á Vestfjörðum. Þar eru 1.100 manns af erlendu bergi brotnir, það eru um 17%. Þegar ég fer í Bónus á Ísafirði afgreiðir mig stúlka sem kom til landsins fyrir tæpum tveimur árum sem kvótaflóttamaður.