151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:13]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski á nokkrum stöðum sem verður aðeins að skoða þetta svar. Ég nefndi íslenskukennslu vegna þess að hæstv. ráðherra talaði þrásinnis við 1. umr. málsins, sem ég var viðstaddur, ég veit ekki hvort hv. þingmaður var þar, og sem ég las yfir í morgun. Hann nefndi íslenskukennslu oft og ekki bara í ræðu heldur í frammíköllum við ræður þingmanna, með spurningu um hvort menn vildu ekki íslenskukennslu. Þess vegna nefndi ég það og hafði á orði að hæstv. ráðherra virtist vera mátulega kunnugur sínu eigin frumvarpi fyrst hann fór að tala um óskylda hluti eins og íslenskukennslu. Ég er ekki í neinum vafa um að hv. þingmaður, framsögumaður fyrir nefndaráliti, álítur sig hafa unnið mikil afrek hér í þágu aldraðra og öryrkja en þeir sjá það ekki. (HSK: Lestu frumvarpið.) Við skerðingunum sem þeir búa við hefur ekki verið hreyft og reiðin og þung undiralda meðal aldraðra finnst glöggt en það virðist ekki snerta hv. þingmann.

Að lokum vil ég bara segja: Við þurfum að hugsa þessi mál í miklu víðara samhengi en mér heyrist að hv. þingmaður geri.