151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

Þingsköp Alþingis.

80. mál
[14:39]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hugmyndir okkar um hlutverkaskiptingu kynjanna breytast í tímans rás enda endurspegla þær ekki endilega náttúrulögmál heldur hugmyndir okkar hverju sinni. Ég var t.d. að lesa um það í gærkvöldi að í Grágás, okkar forna lagasafni frá þjóðveldisöld, er ákvæði um að einungis karlmenn skuli skíra börn. Konur skuli ekki skíra börn og meira að segja skuli konur leiðbeina ómálga sveinbörnum um það hvernig sveinbarnið á að skíra barnið, konunni er sem sagt ekki treyst til þess. Þessar hugmyndir hafa til að mynda breyst í tímans rás og mér finnst það fagnaðarefni. Ég fagna hverju hænuskrefi sem við komumst áleiðis til þess að viðurkenna jafnrétti kynjanna og að kynin hafi jafna aðkomu að úrlausn mála.