151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[15:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er búinn að heyra þessa ræðu áður hjá hv. þingmanni, en hv. þingmaður virðist ekki skilja frumvarpið. Ég spurði hæstv. félagsmálaráðherra að því hvort þetta frumvarp þýddi að sama þjónusta væri í boði fyrir kvótaflóttamenn og hælisleitendur. Hæstv. ráðherra svaraði já, að verið væri að veita sömu þjónustuna. Þetta stendur í greinargerðinni, hv. þingmaður, sem virðist ekki skilja hana sjálf. Í greinargerðinni stendur að með samræmdu móttökukerfi sé unnið að því að tryggja flóttafólki jafna þjónustu óháð því hvernig það kemur til landsins. Ég get lesið þetta aftur fyrir hv. þingmann, óháð því hvernig það kemur til landsins. Það þýðir að allir fá sömu þjónustuna og það mun þýða meiri kostnað vegna þess að hælisleitendur fá ekki sömu þjónustu í dag og kvótaflóttamenn. Verið er að auka þjónustuna þannig að hv. þingmaður getur flutt þessa ræðu mörgum sinnum, eins og biluð plata, ef ég má segja sem svo, en þetta er bara ósköp einfalt. Hæstv. ráðherra hefur svarað þessu. Ég spurði hæstv. ráðherra að þessu og það er kjarni málsins, hv. þingmaður. Þetta er sama þjónustan fyrir alla. Við sendum þessi skilaboð út. Verði frumvarpið samþykkt þá eru þessi skilaboð komin út. Það mun þýða að kostnaðurinn mun aukast. Það mun kannski ekki gerast á morgun en það gerist eftir fáeina mánuði þegar menn átta sig á því að hér er orðin langbesta þjónustan fyrir hælisleitendur í allri Evrópu, allri Skandinavíu. Það mun þýða aukin fjárútlát fyrir ríkissjóð og það er til takmarkað magn af peningum, það er bara einu sinni þannig. Ríkissjóður er orðinn verulega skuldsettur og við verðum bara að sýna ráðdeildarsemi í fjármálum ríkisins. Það er ekki gert í þessu frumvarpi.