151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[20:41]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja í Svíþjóð í þetta sinn og fara aftur til ársins 2017. Þá er talið að u.þ.b. 27.000 hælisleitendur hafi komið til Svíþjóðar. Ráðherra útlendingamála á þeim tíma taldi þá að hæfilegt hefði verið að taka á móti allt að 14.000. Eins og við vitum hefur þróunin verið slæm í Svíþjóð. Glæpagengi nýttu sér svo um munar þennan glugga sem opnaðist árið 2017 til þess eins að koma sínu fólki til landsins til þess, að því er virðist, að standa að glæpsamlegri starfsemi. Það er þetta sem mig langar að staldra við. Það er þetta sem bitnar hvað mest á þeim sem þurfa sannarlega á vernd að halda, okkar vernd. Það er ekki vitað í dag hversu mörg fórnarlömb mansals hafa verið síðan þá, karlar, konur og jafnvel börn. Þetta gerðist þegar straumur flótta- og farandfólks var hvað mestur og Svíar voru meðal þeirra sem opnuðu landamæri sín og veittu öllum búsetuleyfi. Mig minnir að á þeim tíma hafi ekki verið gerð krafa um að fólk fengi sænska kennitölu og það þótti í lagi á þeim tíma, en það hafði þær afleiðingar að ekki var hægt að rekja ferðir fólks sem auðveldaði þá þessum glæpahringjum að nýta sér aðstæður í miður góðum tilgangi. Við sem fylgjumst með norrænum fjölmiðlum sjáum nánast daglega fréttir um glæpagengi sem vissulega eru blönduð af erlendu fólki og heimafólki, ef við getum sagt sem svo. En það hefur samt sem áður orðið sprenging á undanförnum árum, því miður.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hér áðan hafa stjórnmálaflokkar á sænska þinginu ákveðið að leggja fram tillögu sem felur m.a. í sér að takmarka grundvöll dvalarleyfa af mannúðarástæðum. Það þýðir líka að kröfur um tungumál eru hertar á sama tíma og hlutfall innflytjenda er verulega takmarkað og er það algjör kúvending. Þetta er nokkuð svipuð leið og Danir fóru og hafa fest í sín lög. Það er dálítið döpur staða að svona hafi farið því að hugsanlega hefði mátt komast hjá því að þetta endaði svona. Um 60% Svía eru í dag mjög gagnrýnir á útlendingastefnuna sem verður þá til þess að þessi kúvending verður að veruleika.

Við hér á Íslandi höfum staðið að svokölluðum þverpólitískum nefndum til að taka á málefnum útlendinga og flóttafólks og snemma árs 2019 kom út skýrsla. Í II. kafla hennar er að finna leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um móttöku flóttafólks o.fl., og í 6. gr. þeirra segir, með leyfi forseta:

„Flóttafólk fær fjölþætta þjónustu frá velferðar- og menntakerfinu. Félagsþjónusta lögheimilissveitarfélags útfærir þjónustuna nánar en mikilvægt er að flóttafólk fái tíð viðtöl í félagslegri ráðgjöf, sérstaklega fyrsta árið eftir leyfisveitingu …“

Síðar segir:

„Flóttafólk ber sjálft ábyrgð á húsnæðisleit og hefur frjálst val um búsetu. Ef flóttafólk lendir í bráðum húsnæðisvanda ber lögheimilissveitarfélagi að aðstoða það samkvæmt 46. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.“

Einnig fær flóttafólk grunnfjárhagsaðstoð og er það sveitarfélags að meta hvort veita beri flóttafólki styrki út frá sérstöðu þeirra, aðstæðum þeirra og þörfum. Meðal þeirra styrkja sem tilgreindir eru til leiðbeiningar er húsbúnaðarstyrkur, styrkur vegna íslenskunáms, ferðastyrkur vegna fjölskyldusameiningar og styrkur til sérfræðiaðstoðar vegna áfallastreitu. Flóttafólk hefur sambærilegan rétt og íslenskir ríkisborgarar í almannatryggingarkerfinu og þjónusta sveitarfélaga miðast við lögheimili og flóttafólk á því sama rétt á þjónustu og aðrir íbúar. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga endurgreiðir ríkissjóður útlagðan kostnað vegna erlendra ríkisborgara fyrstu tvö árin eftir að lögheimili þeirra hefur verið skráð og þegar vísað er til útlagðs kostnaðar er átt við beinan kostnað en ekki er greitt fyrir vinnuframlag starfsmanna sveitarfélags.

Þetta er mjög gott markmið, þetta er svo gott að ég hef af því áhyggjur. Hvað ef það gerist sem gerðist í Svíþjóð fyrir nokkrum árum? Það er lengra síðan sprenging varð í komu flóttamanna frá Afríku, til varð flóttamannahverfi, því miður, og afleiðingarnar voru ekki góðar. En hvar standa sveitarfélög okkar ef svo fer þegar fjöldinn eykst? Nú er talað um að við séum með sex sinnum fleiri umsækjendur en nágrannaþjóðir okkar. Það sem þarf að gera er að búa til umræðugrundvöll um þetta. Það getur vel verið að við séum jafnvel komin á þann stað að við þurfum að endursetja stefnuna eða jafnvel setja stefnu sem virkar, sem er trúverðug og sönn.

Ég segi þetta vegna þess að unnin var viðamikil rannsókn í Háskólanum á Akureyri sem sneri að innflytjendum. Þessi rannsókn var gerð árið 2020 og kom út skýrsla um hana. Þar kemur fram að ólíkir hópar innflytjenda fá mismunandi þjónustu eftir stöðu þeirra. Þar er um að ræða þjónustu sem er allt frá því að vera vel skipulögð þjónusta við flóttamenn, og er gefið til kynna að verið sé að festa það í sessi, í það að vera lausleg og minna skipulögð þjónustu við almenna innflytjendur. Það er umhugsunarefni. Ég vil staldra aðeins við þarna. Við virðumst ekki geta staðið okkur með fullnægjandi eða faglegum hætti gagnvart þeim sem nú þegar eru hluti af samfélaginu. Samt sem áður stöndum við frammi fyrir því að enn á að auka í, ég tala nú ekki um ef því fólki fjölgar sem hingað vill koma. Við viljum öll taka á móti fólki en við þurfum líka að gera það vel.

Í rannsókninni sem gerð var í Háskólanum á Akureyri kemur fram að stuðningur og þjálfun kennara virðist hvorki vera í skipulegum farvegi til skamms né langs tíma. Er þá átt við kennara sem standa að kennslu í íslensku fyrir útlendinga. Við verðum að gera betur og sérstaklega gagnvart þessum kennurum ef við ætlum að standa vel að því að taka á móti fleirum. Við verðum að gera það vel sem við getum gert vel. Við getum vel staðið okkur betur. Þátttakendur í rannsókninni voru beðnir um að leggja mat á gæði þeirra íslenskunámskeiða sem þeir höfðu sótt. Það voru 1.754 sem svöruðu þeirri spurningu og fram kemur að stór meiri hluti var ekki ánægður með þau íslenskunámskeið sem hann sótti. Þessar niðurstöður áttu við á öllum þeim svæðum sem voru til rannsóknar. Mig minnir að það hafi verið fjögur sveitarfélög undir. Tvö þeirra voru með ákveðna stefnu í málaflokknum, en tvö þeirra ekki. Þetta er ákveðið áhyggjuefni og gefur tilefni til frekari rannsókna á stöðu íslenskunámskeiða. Innflytjendur hafa sjálfir sagt að mögulega þurfi að setja upp próf til að þeir geti haft slíkt upp á vasann til þess að geta sótt um vinnu, að þá myndu gæði íslenskukennslunnar aukast. Það væru þá gerðar ríkari kröfur til þeirra kennara sem sinna kennslunni. Innflytjendurnir sögðu nefnilega að það væri í raun lykillinn að íslensku samfélagi að kunna íslensku og þeir voru oft ráðnir til starfa á Íslandi án þess að gerð sé krafa um að þeir kunni íslensku. Þeir eru ekki sáttir við það og vilja auka gæði námsins.

Við þurfum að vanda til verka. Við erum að fara í kjölfarið á þeirri aðferðafræði sem nágrannaþjóðir okkar eru að hverfa frá vegna þess að hún virkar ekki. Hún er vissulega falleg á blaði en það þarf meira til.