151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[21:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði viljað bregðast við þessu en ég ætla að nota tímann, hann er svo skammur, til þess að koma að fyrirspurninni sem ég stefndi á að spyrja hv. þingmann að. Það lýtur að aðlöguninni sem hv. þingmaður kom inn á áðan. Nú er það orðin stefna í Danmörku að hælisleitendur, flóttamenn sem hafa komið til landsins frá stríðshrjáðum löndum, fari til baka til síns heimalands þegar aðstæður leyfa. Nú hefur t.d. fyrrverandi ráðherra innflytjendamála í Danmörku skrifað pistil á samfélagsmiðla þar sem hún bendir á að nú þurfi hælisleitendur sem komu frá Sýrlandi og Danmörk tók á móti að vera búnir undir það að fara að yfirgefa landið. Þetta hefur fengið ýmis viðbrögð, sum jákvæð, sum neikvæð, í Danmörku. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það hver hans skoðun sé á því að þegar aðstæður batna í heimalandi viðkomandi (Forseti hringir.) þá komi þrýstingur frá stjórnvöldum heimaríkisins, þ.e. þar sem viðkomandi býr, að hann fari aftur til síns heimalands.