151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[21:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Upp að því marki sem það er yfir höfuð raunhæft þá trúi ég því að fólk eigi bara að fá að velja hvar það býr. Ef hv. þingmann langar að flytja til Kenýa eða Georgíu þá trúi ég því að hv. þingmaður eigi að mega það. Það er mín trú. Þess vegna er ég ekki þeirrar skoðunar að það sé gott eða bara skynsamlegt yfir höfuð að vera að senda fólk til baka sem er þegar komið inn í samfélagið. Það sem mér finnst að við ættum að vera að tala um hérna, það sem ég vona að við getum einhvern tímann orðið sammála um, er aðlögunarferlið sem við viljum sjá. Sem dæmi þá finnst mér sjálfsagt að það sé skyldunám fyrir fólk sem flytur hingað, af sömu ástæðu og mér finnst eðlilegt að það sé skyldunám fyrir börn. Það eru bara ákveðnir hlutir sem koma með því að búa í samfélagi; þú þarft að kunna að lesa, þú þarft að kunna ákveðin samskipti og þarft að þekkja samfélagið nógu vel til að fúnkera vel í því. Sú þjónusta þarf að mínu mati að vera skylda og á að vera skylda og má vera skylda. Við gætum eflt hana. En við komumst ekki þangað í umræðunni(Forseti hringir.) vegna þess að við erum of upptekin við að karpa um það hvort við viljum hafa fólk hér eða hinum megin. (Forseti hringir.) Það finnst mér, virðulegi forseti, leiðinlegur staður til að stöðva umræðuna á.