151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[22:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst hv. þingmaður krafði mig ekki um svar þá skal ég a.m.k. reyna að hafa svarið stutt. Mér heyrðist að mér hefði tekist að draga aðeins úr áhyggjum hv. þingmanns því að enn sem komið er í þessum lestri, herra forseti, og þetta á reyndar eftir að skýrast aðeins betur eftir því sem á líður, þá er hér ekki gerð önnur krafa en sú að þeir sem vilja gerast þátttakendur í dönsku samfélagi lagi sig að grundvallargildum. Ég hef reyndar ekki séð neitt um að menn þurfi að borða beikon eða annan danskan mat en ég held að áhyggjur hv. þingmanns hvað varðar þessi grundvallargildi, hvað Danmörku varðar a.m.k. og þá kannski Ísland líka, séu ástæðulausar. En þetta skýrist eftir því sem á líður.

Hvað varðar hins vegar trúarbragðakenningar hv. þingmanns þá gæti verið áhugavert að ræða þær við hann einhvern tímann í viðeigandi umræðu en nú þegar ég hef innan við mínútu til að klára svarið þá ætla ég ekki að hætta mér út í trúardeilur við hv. þingmann. En það er hins vegar mjög áhugavert umræðuefni, ég skal fallast á það, áhrif trúarbragða á menningu og þróun samfélaga. Ég hefði gaman af slíkri umræðu en það er ekki svigrúm til þess núna.