151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[22:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem alveg rannsóknarinnar virði hvers vegna einhverjum dettur í hug að koma til Íslands, því að auðvitað erum við verulega skrýtin, fyrst hv. þingmaður er farinn að ræða það. Hangikjöt, sviðakjammar, hákarl og eitthvað svona sem er örugglega mjög framandi en okkur þykir sjálfsagt og við eigum ekki að neyða þessu ofan í nokkurn mann, að sjálfsögðu ekki. En það er annað mál. Ég lít þannig á að upplýsingar sem kæmu út úr því t.d. að spyrja bara hversu stór hluti af hælisleitendum eða slíkum einstaklingum hefur komist í kast við lögin eða í einhverju sem kemur upp hjá barnavernd eða í skólum, eitthvað slíkt, séu til þess að læra af því. Í fyrsta lagi langar mig að varpa því upp, þetta er ekki mjög djúpt hugsað hjá mér, hvort einstaklingar sem lenda í þessum vanda út frá einhverju sem ég þekki ekki, geti aðlagast íslensku samfélagi. Kannski, kannski ekki. Þurfum við þá að horfa til þess í framtíðinni hvort þessi hópur eigi að fá dvalarleyfi á Íslandi? Er kannski eitthvað í móttökunni sem við þurfum að laga? Þarf meira utanumhald utan um þá hópa sem fá dvalarleyfi og lenda í þessum vandræðum? Ég hef ekki áhyggjur af því að þetta búi til eitthvert hatur eða eitthvað slíkt. Ég held að það geti mögulega eytt fordómum þegar fólk sér — við erum ekki að tala um að nafngreina einstaklinga, heldur þegar við sjáum hver vandinn er.

Ég er ekki sammála þessu frumvarpi og get ekki samþykkt það. Það er vegna þess að ég held í alvörunni og trúi því, því miður, að þetta muni senda slæm skilaboð út í hinn stóra heim um að það sé um að gera að drífa sig til Íslands. (Forseti hringir.) Ég held líka að við séum að stíga skref sem önnur lönd eru að reyna að komast út úr.