151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[23:32]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég hefði talið að það væri nauðsynlegt að gera hér grein fyrir atriði í umsögn sem barst frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga við frumvarpið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þá er ástæða til að vekja sérstaka athygli velferðarnefndar á því að verkefni sem tengjast samræmdri móttöku flóttafólks eru verulega vanfjármögnuð miðað við þær væntingar sem uppi voru þegar hafist var handa við innleiðinguna.“

Það er mjög athyglisvert í ljósi þess að nú hélt framsögumaður því fram hér í dag að kostnaðurinn væri klár, hann væri 23,7 milljónir, og vísaði öllu á bug í okkar málflutningi, Miðflokksmanna, um að þær tölur stæðust ekki. Það hefur greinilega algerlega verið horft fram hjá þessu atriði í störfum nefndarinnar þegar verið var að fara yfir umsagnir, ég get ekki séð betur. Hér segir áfram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga við þetta frumvarp:

„Fjármagn hefur verið skorið við nögl í samningum félagsmálaráðuneytisins við móttökusveitarfélög og ekki virðist í ráði að bæta sveitarfélögum upp þau viðbótarútgjöld sem hljótast af auknu álagi á skólakerfið og innan barnaverndar. Þá virðist ekki vera reiknað með því að heilbrigðiskerfið eigi aðkomu að samræmdri móttöku.“

Þetta er býsna harðorð gagnrýni, verð ég að segja, á þetta frumvarp og þá sérstaklega fjármögnun þess. Hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir, sem er framsögumaður þessa máls, minntist hvergi á þessa þætti, að þetta hafi verið gagnrýnt með þessum hætti af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Síðan segir hér áfram:

„Um þessar mundir er Ísland að taka hlutfallslega á móti flestu flóttafólki í samanburði við Norðurlöndin. Samfélagið og innviðir þess þurfa að vera í stakk búnir að veita þann stuðning og þjónustu sem hinn fjölbreytti hópur flóttafólks á tilkall til.

Þá hefur þessi aukni straumur í för með sér verulega hærri útgjöld sveitarfélaga vegna fjárhagsaðstoðar. Samkvæmt gildandi lögum endurgreiðir ríkissjóður sveitarfélögum þessi útgjöld fyrstu tvö árin eftir að flóttafólk flyst hingað til lands. Sjá má í upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu að þessar endurgreiðslur ríflega tvöfölduðust á milli ára 2019 og 2020. Ætla má að ráðuneytið sé að nýta hluta af því fjármagni sem ætlað var til samræmdrar móttöku til þess að standa straum af endurgreiðslum fjárhagsaðstoðar. Er það mjög neikvætt“ — segir í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga við frumvarpið — „og veldur því að hægar og verr mun ganga að innleiða samræmda móttöku flóttafólks en vonir stóðu til.“

Þessi umsögn, herra forseti, sýnir svart á hvítu að þetta mál er illa unnið og alveg ljóst að ekkert er horft í þau auknu útgjöld sem koma til með að fylgja þessu frumvarpi, sem snýr sérstaklega að sveitarfélögunum. Það er mjög gagnrýnivert og ég er satt að segja mjög hissa á því að þetta skuli ekki hafa verið rætt hér og að framsögumaður, hv. Halla Signý Kristjánsdóttir, skuli ekki hafa minnst einu orði á þetta í sinni ræðu hér, heldur kosið að leggja mönnum orð í munn og hafa uppi stóryrði um það sem hafði aldrei verið sagt í þessari umræðu.

Ég hefði talið, herra forseti, að það væri nauðsynlegt að þessi umsögn yrði rædd sérstaklega innan nefndarinnar og farið yfir það með hvaða hætti eigi að mæta þessum útgjöldum þegar hér segir í umsögninni að þetta sé verulega vanfjármagnað. Þetta er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er nauðsynlegt, herra forseti, að mínu viti að þetta verði rætt frekar.