151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:33]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki slæmt að samræma eigi einhverja hluti. Talað er um að það eigi að setja niður tvo starfsmenn. Tveir starfsmenn gera ekki mikið í þessu gríðarstóra verkefni. Ég fór yfir rannsókn í ræðum mínum í gær sem fjallar um innflytjendur, fólk sem er hér nú þegar, sinnir vinnu og sækir nám og er hluti af samfélaginu. Það kvartar yfir því að vera ekki hluti af samfélaginu. Og það að halda að aðeins tveir starfsmenn geti samræmt móttöku innflytjenda — það er á engan hátt nægilegt. Verkefnið er til eins árs. Ég velti fyrir mér hvað verður um það fólk sem verður búið að skjóta rótum eftir eitt ár. Gufar það bara upp? Sveitarfélögin eru nú þegar búin að ráða einn starfsmann, alla vega nokkur, til að sinna þessu hlutverki. Er það nægjanlegt? Ég vitnaði líka í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem segir að það sé skorið við nögl nú þegar það fjármagn sem kemur í þá samninga sem eru í gildi á milli félagsmálaráðuneytis og móttöku sveitarfélaga. Sambandið segir líka að það sé fyrirséð að útgjöld muni aukast.