151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það er margt ósagt í þessu máli. Ég var rétt byrjaður að rekja þróunina á Norðurlöndum, þá reynslu sem norrænu þjóðirnar hafa og það sem við gætum lært af þeirri stefnubreytingu sem þar hefur orðið. Og ég var varla byrjaður að rekja eðli þessara mála sem mér þætti eðlilegt að líta til þegar verið er að ráðast í svo mikla stefnubreytingu í máli sem hefur verið eitt stærsta, líklega stærsta, pólitíska viðfangsefnið á Norðurlöndum undanfarin ár. En menn vilja afgreiða það hér helst án umræðu og án þátttöku þingmanna stjórnarliðsins eins og kostur er.

Kjarni málsins er sá að hér er verið að ráðast í breytingar sem ganga þvert á það sem við sjáum í öðrum löndum og það mun hafa mjög veruleg áhrif á Íslandi. Það mun hafa mjög veruleg áhrif til framtíðar. Þegar um svo stórt og mikilvægt mál er að ræða þá sætir það furðu, herra forseti, að menn skuli ekki hafa undirbúið málið betur, það er reyndar lagt fram í annað sinn, og ekki kannað áhrifin. Þeir virðast ekki hafa gert minnstu tilraun til að kanna áhrifin af þessu stóra máli sem er, eins og ég segi, líklega stærsta pólitíska viðfangsefnið á Norðurlöndum undanfarin ár.

En nú skilst mér að til standi að reyna að gera einhverja bragarbót á því í nefndarvinnu og í trausti þess að sú verði raunin geri ég ráð fyrir að það sé óhætt, herra forseti, að bíða með ýmis þau rök sem ég átti eftir að koma með í þessa umræðu þar til að sú vinna hefur farið fram. Það geri ég í trausti þess að sú vinna verði unnin af heilindum með það að markmiði að komast að því hvað er raunverulega rétt, hver raunveruleg áhrif eru, fremur en að búa til einhverjar reyksprengjur eða rakalausar ástæður fyrir því að keyra málið áfram með þeim hætti sem gert hefur verið. Ég treysti á það, herra forseti. Ég veit að hæstv. forseti hlýðir á orð mín og gerir sér grein fyrir því að við hljótum að vilja líta svo á að hægt sé að treysta þinginu til að vinna svona stór mál almennilega.