151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef enginn væri efinn þá værum við ekki hér. (Gripið fram í.) Ég frábið mér dylgjur um að ég sé að brjóta drengskaparheit mitt. (Gripið fram í.) Það er nöturlegt, hv. þingmaður. Væntanlega eru fjölmörg ákvæði í stjórnarskránni sem má túlka á ýmsa vegu. Ef við tækjum alltaf tillit til einhvers vafa myndum við bakka með alla skapaða hluti sem við samþykkjum hér. Ég fellst ekki á það. En ókei, við skulum vera ósammála um það.

En það er líka alveg ljóst að það er ekki hægt að skylda flugrekanda til þess að flytja smitaðan Íslending til landsins. (JÞÓ: Hann hefur vald til að stoppa það í dag.) Það er ekki hægt að skylda flugrekanda til að flytja smitaðan Íslending til landsins og setja í hættu heila flugvél, frekar en hægt er að skylda hann til að flytja drukkinn einstakling. Ég geri mér alveg grein fyrir því að á þessu er munur, hver þarna er að verki með bönn. En þetta er kjarni málsins. (Gripið fram í.)