151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[13:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna þeim stuðningi við frumvarpið sem lýtur að því að styðja við einkarekna fjölmiðla. Það er í fyrsta sinn sem slíkt frumvarp er lagt fram og er auðvitað til marks um það að hér er verið að sinna fjölmiðlum. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er afar mikilvægt að umhverfið í kringum fjölmiðla sé traust og að við styðjum við þá eins og við gerum varðandi RÚV og núna með þessu frumvarpi. Að sama skapi hef ég sagt að það sé mjög mikilvægt að jafna leikinn, þ.e. að við hugum að skattlagningu á erlendu efnisveiturnar og skoðum leiðir sem eru sambærilegar við það sem hefur verið gert í Ástralíu. Ég styð það eindregið. Það sem hefur gerst er að umhverfi fjölmiðla hefur breyst mikið. Frumvarpið er liður í því að styðja við einkarekna fjölmiðla og það er auðvitað fagnaðarefni að finna breiðan stuðning hér í þinginu.