151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[17:06]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Frú forseti. Við lifum sannarlega á óvenjulegum tímum og höfum gert það núna undanfarið rúmt ár. Það gildir að sjálfsögðu ekki síst um alla alþjóðasamvinnu og alþjóðasamstarf. Ég vil byrja á því að þakka fyrir vinnu starfsfólks utanríkisráðuneytisins og þá sér í lagi starfsfólks utanríkisþjónustunnar fyrir þeirra ötula starf og sérstaklega í borgaraþjónustunni á tímum heimsfaraldurs þar sem þau hafa lagt mikla vinnu í að aðstoða íslenska ríkisborgara á þessum tímum. Þetta hafa vissulega verið krefjandi, skrýtnir og áður óþekktir tímar á alþjóðavettvangi. Viðbrögð við heimsfaraldri hafa vissulega verið meginverkefni flestra ríkja undanfarið ár og þar með utanríkisþjónustu og utanríkisráðuneyta allra ríkja.

Heimsfaraldurinn hefur líka sýnt okkur svart á hvítu að alþjóðasamstarf og alþjóðasamvinna skiptir öllu máli þegar upp koma viðlíka aðstæður og við höfum þurft að glíma við undanfarið ár. Ég verð að segja, frú forseti, að hér hefur utanríkisþjónustan gert marga góða hluti við þröngar aðstæður. Ég vil þar nefna viðskiptavaktina þar sem hæstv. utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra kom á fót starfshópi um stuðning utanríkisþjónustu við útflutningsgreinar og atvinnulíf í kjölfar heimsfaraldursins. Sömuleiðis vil ég nefna samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu, Heimstorg, sem miðlaði upplýsingum til íslenskra fyrirtækja um möguleg atvinnuþróunarverkefni í þróunarlöndum og víðar. Eins er Samstarfssjóður við atvinnulífið um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem komst, að því er fram kemur í skýrslunni, á fullan skrið. Það er gott og þetta eru góð merki um að utanríkisþjónustan hafi einnig horft á aðra hluti og þætti í samstarfi þjóða með öðrum hætti en eingöngu í þeim hamfaragír sem við höfum verið í undanfarin ár.

En það er ýmislegt annað sem hefur verið umfangsmikið í utanríkisþjónustunni og utanríkismálunum hér heima undanfarið ár. Það er starf Norðurskautsráðsins og ný norðurslóðastefna, umfangsmikil Grænlandsskýrsla. Við höfum líka stigið fram með skýrari hætti en áður þegar kemur að norðurskautinu og norðurslóðamálunum sem eru að verða æ umfangsmeiri í alþjóðasamstarfi og æ mikilvægari, sér í lagi í tengslum við loftslagsbreytingar sem munu þýða miklar breytingar hér í Norðurhöfum og á Íshafi og þegar kemur að siglingaleiðum og samstarfi við norðurskautsþjóðirnar.

Það er gott og það er vel að íslenska utanríkisráðuneytið og hæstv. utanríkisráðherra sé að vinna að því að hingað komi utanríkisráðherra Bandaríkjanna í þessum mánuði. Það verður mjög spennandi að sjá hvað kemur út úr þeim fundi hér á Íslandi. Ég vænti þess að þar verði slegnir nýir tónar af hálfu Íslands við nýja ríkisstjórn Bandaríkjanna.

Tíminn er kannski ekki eins mikill eins og maður myndi vilja, en mig langaði til að vekja athygli á tveimur þáttum utanríkismála á alþjóðavettvangi. Það eru loftslagsmálin, sem eru að verða æ umfangsmeiri og meira áberandi rauður þráður í allri alþjóðapólitík, vegna þess að þau tengjast í raun og veru nánast öllum sviðum mannlífsins. Það eru það miklar áskoranir fyrir okkur hér í þessum heimi þegar kemur að loftslagsbreytingunum að við þurfum að gefa í. Við þurfum að tengja loftslagsmálin og viðbrögð við breytingum á loftslagi við öll okkar kerfi, inn í alla okkar vinnu. Ísland stefnir nú að 55% samdrætti fyrir árið 2030 miðað við 1990 og stefnir að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Þetta þarf að vinna hraðar, róttækar og með afdráttarlausari hætti en hingað til vegna þess að næsti heimsfaraldur og næsta stóra verkefni heimsbyggðarinnar er nú þegar komið og það eru loftslagsbreytingarnar. Ég vil hvetja hæstv. utanríkisráðherra til dáða í þeim efnum það sem eftir lifir kjörtímabils. Ég minni í því samhengi á þingsályktunartillögu mína um græna utanríkisstefnu sem byggir á því sem Norðurlandaþjóðirnar hafa verið að gera, sér í lagi dönsk stjórnvöld sem hafa sýnt gríðarlega mikinn metnað og framsýni þegar kemur að grænni utanríkisstefnu, en sömuleiðis Finnar og Svíar. Svíar hafa haft mjög góða reynslu af því að vera með femíníska utanríkisstefnu sem við getum líka tekið upp á okkar arma, þ.e. að formgera áherslur okkar á alþjóðavettvangi með skýrari hætti þegar kemur að jafnréttismálunum. Það kemur inn í sérstaklega þróunarsamvinnuna.

Ég ætla aðeins að tengja úr loftslagsmálunum yfir í þróunarsamvinnu, vegna þess að það er skýr tenging þar á milli, og málefni fólks á flótta og ekki síst málefni á alþjóðavísu og alþjóðasamvinnu þegar kemur að heilbrigðismálum. Því að þegar fer að birta til hjá okkur í þeim efnum nú eftir heimsfaraldurinn, þegar bólusettum einstaklingum um allan heim fer að fjölga, vonandi, þá skiptir ótrúlega miklu máli að vera vakandi yfir því að að öllum líkindum mun þróunarsamvinna verða hugsuð upp á nýtt og þá með meiri áherslu á heilbrigðismál og jafnan aðgang allra að góðri heilsugæslu, lyfjum og samstarfi á þeim vettvangi. Þar erum við í góðum færum. Við erum með ótrúlega góð verkefni og gott orðspor þegar kemur að þróunarsamvinnuverkefnum okkar í Afríku og víðar. Það er vel og það þarf að nota þá þróun áfram. Ég held líka að hæstv. utanríkisráðherra, með reynslu sína úr heilbrigðisráðuneytinu, hljóti að hafa mikið áhuga á þeirri hlið þróunarsamvinnumála, að útvíkka þróunarsamvinnu meira í þær áttir.

Þegar kemur að loftslagsmálunum og þróun á málum þá tengjast þau náið mannúðarmálum, mannréttindamálunum og fólksflutningum. Við sjáum það líka strax að 75 milljónir manna eru nú á flótta, hvort sem er innan sinna landsvæða eða út fyrir þau ríki þar sem þau eru ríkisborgarar. Þetta er hæsta tala sem við höfum nokkurn tímann séð í þessu sambandi, frú forseti, þegar kemur að fólki á flótta. Þessi tala á eftir að hækka hratt vegna þess að í kjölfar loftslagsbreytinga, þurrka, hungursneyða og skorts á vatni þá verður þetta æ meira knýjandi verkefni sem við þurfum að marka okkur skýrari stefnu í og taka utan um loftslagsmálin þegar kemur að þróunarsamvinnunni og veita fjármuni í verkefni sem snúa að því að valdefla íbúa þróunarlanda í því að sporna við afleiðingum loftslagsbreytinga. Við sáum þetta í ríkjunum í kringum Sahara. Þar er gríðarlegur fjöldi fólks á faraldsfæti. Þar sjáum við líka stríðsátök um náttúruauðlindir sem munu hafa líka skelfileg áhrif þegar fram í sækir.

Mannréttindamálin. Ég er ótrúlega stolt af veru Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og mér finnst íslenskum stjórnvöldum hafa tekist vel upp og Íslandi út á við. Ég er ánægð með áherslur okkar þar og vil hvetja okkur til dáða vegna þess að við sitjum áfram í nefndum á vegum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Þar höfum við tækifæri til þess að láta í okkur heyra vegna þess að eins og við vitum skiptir ekki miklu máli á alþjóðavettvangi hvort þjóðir eru fjölmennar eða ekki, heldur skiptir það máli hvaða skilaboð við erum að senda. Mannréttindamál eru að verða æ umfangsmeiri þegar kemur að alþjóðasamstarfi og á vettvangi. Við höfum verið að sjá æ meiri tilhneigingu í þá átt að fara í svokallaðar „soft power“-nálganir með úrlausnarefni á alþjóðavettvangi. Þess vegna skiptir líka gríðarlega miklu máli að hafa séð ríkisstjórnaskipti, forsetaskipti í Bandaríkjunum. Ég bíð því spennt eftir því að sjá nánari útfærslu á þeim stjórnarskiptum þegar kemur að samskiptum Bandaríkjanna og Íslands og vænti mikils af hæstv. utanríkisráðherra og íslenskum stjórnvöldum þegar kemur að samskiptum við bandarísk stjórnvöld.