151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[17:16]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Aldrei þessu vant ætla ég ekki að vera mjög fjölyrtur um norðurslóðamál, ætla þó að koma að þeim lítillega, en ég mun fjalla þeim mun meira um mannréttindamál og vísa þá til mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem mun vera jafngömul mér. Ég vil meina að hún sé algild. Það hefur stundum brugðið til annarra vona og menn hafa dregið það í efa. Það sem mér er ofarlega í huga er að hún er ekkert innanríkismál, þ.e. mannréttindi eru ekki innanríkismál og þau mál sem hún tekur til. Því til sönnunar er auðvitað raunveruleikinn, það eru mannréttindadómstólar starfandi og það er aðhald samfélaga, margra jafnvel, gagnvart einu samfélagi. Síðan hvíla augu veraldar á þjóðum sem brjóta mannréttindi eða stjórnvöldum sem brjóta mannréttindi. Þannig að það væri raunverulega öðruvísi ef menn í einu landi gætu ekki treyst mönnum í öðru landi og mannúð væri háð landamærum, sem er auðvitað fráleit hugmynd.

Smáríki eru þungvægari en stærðin segir til um. Ég tel að Norðurlöndin séu ágætt dæmi um það í mannréttindamálum. Það er jú þannig hjá okkur að mannréttindi innan lands á okkar tímum eru með ágætum skikk, svo maður segi það hreint út. Þá er ég einkum að miða við breytingarnar sem orðið hafa á síðastliðnum áratugum. Það voru og hafa auðvitað verið gallar hjá okkur eins og öðrum þjóðum og við viðurkennum það og vinnum að úrbótum. Ég minni á mannréttindi barna, fatlaðra, hinsegin fólks, jafnrétti karla og kvenna. Við höfum tekið verulegum framförum á öllum þessum sviðum en auðvitað verður það seint fullkomnað. Það má segja að á veraldlegan mælikvarða, veraldarmælikvarða jafnvel, stöndum við tiltölulega vel að þessu öllu saman og þar með skiptir það máli sem við segjum út á við. Við höfum það orð á okkur að hér sé þetta í þannig standi.

Starf okkar að mannréttindum ber vitni um þetta. Við erum aðilar að mannréttindasáttmála Evrópu og höfum tekið þátt í störfum Evrópuráðsins og unnið náið með ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Við höfum fléttað loftslagsmál inn í þróunarsamstarf og höfum setið í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, frá 2018–2019, og munum gera tilraun til þess að komast þar inn aftur 2025–2027, til frekari þátttöku þar og ber að fagna þeirri tilraun.

Ísland skiptir sem sagt máli. Það kom glöggt í ljós meðan við sátum í mannréttindaráðinu. Það sem við gerðum og sögðum varðandi mannréttindi á Filippseyjum hafði sitt að segja og, svo ég taki annað dæmi, það sem við sögðum og gerðum varðandi mannréttindi í Sádi-Arabíu hafði líka mikið að segja. Okkar frammistaða þar var eftirtektarverð og ber auðvitað að fagna því að við höfum getað orðið til gagns á þennan máta.

En hvort sem Ísland er innan eða utan mannréttindaráðsins þá látum við mannréttindi til okkar taka og er talað fyrir þeim hvarvetna. Við gætum tekið mörg dæmi um það sem ýmist þyrfti að snúa sér að eða það sem við höfum þegar snúið okkur að. Þetta gerum við hér ýmist með því að mótmæla eða taka þátt í umræðum og lýsa áhyggjum. Það getur auðvitað verið viðkvæmt mál á sumum tímum. Það er auðvelt að hleypa jafnvel illu blóði í þá sem gera á hlut annarra og við þurfum að taka tillit til annarra hópa, tillit til samtaka sem starfa í löndum þar sem mannréttindabrot eru framin o.s.frv. En í það heila eru verkefnin næg.

Mig langar að nefna bara nokkur lönd: Tyrkland, varðandi Kýpur þar sem tyrknesk yfirvöld eru að reyna að koma í veg fyrir að Kýpur-Grikkjar og Kýpur-Tyrkjar ráði fram úr sínum málum og sameina jafnvel Kýpur aftur. Hægt er að minna á Kúrda í Tyrklandi og stjórnarandstöðuna þar almennt. Undir stjórn Erdogans hefur mörgu farið aftur og er full ástæða til að beita sér á þeim vettvangi. Í Írak þekkjum við jú Anfal-herferðina sem þjóðarmorð á Kúrdum á tímum Saddams Husseins og nú liggur fyrir þingsályktunartillaga í þinginu um að viðurkenna það. Sýrland, þar er bæði styrjöldin sjálf og flóttamannastraumurinn og síðast en ekki síst herferð gegn jesídum, sem er sérstakur trúarhópur sem skiptir sér milli ríkja en er fyrst og fremst í Sýrlandi. Í Kína getum við nefnt Xianjiang og Úígúra. Þar er gagnrýni á kínversk yfirvöld byggð á margvíslegum fréttum og gögnum, brot á þjóðarréttindum sem þar kunna að vera uppi og um að gera að taka til máls gegn því. Og það höfum við gert, Íslendingar. Ef við höldum okkur við Kína er líka haft auga með Hong Kong. Í Rússlandi snúast mál um stjórnmálafrelsi og almennt fjölmiðla- og skoðanafrelsi. Þar erum við að mörgu leyti í góðu sambandi við stjórnvöld og getum fylgt eftir gagnrýni. Á Indlandi er mér ofarlega í huga þjóðernisstefna Modis, núverandi forsætisráðherra, og hans flokks þar sem verið er að þagga niður í andstæðingum og verið með stjórnarfarslegan yfirgang. Ég ætla að enda þessa upptalningu á Katalóníu þar sem dómar og fangelsanir aðskilnaðarsinna eru fráleitir og það í Evrópu, svo maður taki það nú sem dæmi um svæði í næsta nágrenni við okkur.

Það er auðvitað fleira sem er umhugsunarvert og jafnvel mótmælavert, en það er of langt upp að telja. En ég vil leggja áherslu á og hvetja utanríkisráðherra til að halda áfram á sömu braut og hefur verið og sinna þessum málum af mikilli alvöru. Og hvort sem okkur auðnast að vera aftur þátttakandi í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna eða ekki þá er hægt að snúa sér að þessum ríkjum sem ég hef talið hér upp og raunverulega fleiri.

Frú forseti. Ég lofaði að segja örfá orð um norðurslóðamál vegna þess að ég sit jú sem formaður í þingmannanefnd norðurslóða. Ég get varla látið þessa skýrslu ónefnda, sem ég vil reyndar þakka fyrir hversu ítarleg er og nákvæm, og eins sérprentið sem við fengum í hendurnar, sem var mjög gagnlegt vegna þess að það tekur flest atriðin til og gerir yfirferðina auðveldari.

Það sem ég vil leggja áherslu á, þar sem ég ætla ekki að halda langa tölu hér varðandi norðurslóðir, er að á þessu lágspennusvæði okkar, sem okkur hefur tekist að halda býsna vel þannig, vex nú spenna. Um það er ekki hægt að deila. Það er auðvitað á vettvangi öryggis- og varnarmála. Ég hef reynt að lýsa þessari stöðu myndrænt og kalla lýsinguna einhvers konar borðtennisferil eða ping pong. Menn skiptast á að framkvæma eða segja eitthvað. Þetta snýst m.a. um uppbyggingu á mannvirkjum og aðstöðu sem tengist á einhvern máta vörnum og hernaði, en það er þá umfram það sem við getum kallað leit og björgun, umfram aðstoð á sjó og umfram eðlilegar landvarnir. Þarna eru tveir spilarar, annars vegar NATO-ríkin og Finnland og Svíþjóð, og síðan Rússland hins vegar. Ég vil fullyrða að þarna koma líka til sögu auknar heræfingar. Það koma líka til sögu ögranir; lágflug og annað slíkt. Það er líka verið að sýna og prófa ný vopn. Öll átta ríkin á norðurslóðum finna fyrir þessu og ég ætla svo sem ekki að fjölyrða frekar um það. En ég ætla að hvetja til frumkvæðis okkar í því að leiða aðila saman utan Norðurskautsráðsins og þingmannaráðstefnu norðurslóða skref fyrir skref að niðurtalningu hernaðar- og öryggisástands, eða óöryggisástands eins og ég vil kalla það, og útbúa einhvers konar kóða, hegðunarreglur á sviði öryggis- og varnarmála sem tryggja friðsamlega sambúð á norðurslóðum.

Ég er ekki með spurningu til hæstv. utanríkisráðherra og læt hér staðar numið.