151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

undirbúningur þjóðgarðs á Vestfjörðum.

[13:42]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum á eftir að opna tækifæri fyrir nærsamfélögin til að vaxa og dafna og byggja undir innviðauppbyggingu, atvinnulíf og menningu fjórðungsins í heild. Með því náum við hámarksábata og sátt um verkefnið. En til að það geti orðið þarf að vanda allan undirbúning og áform. Ég hef heyrt að það eigi að stofna þjóðgarðinn núna 17. júní næstkomandi og enn er ekki tryggt fjármagn í þá uppbyggingu sem þarf að vera. Nú mætti ætla að stofnun þjóðgarðsins auki ferðamannastrauminn um umrætt svæði. Þess vegna er mjög mikilvægt að fjármagn sé tryggt til ákveðins tíma til að mæta aukinni ásókn þar sem svæðið er mjög viðkvæmt. Það er í raun í friði í dag vegna þess að erfitt er að komast um það. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað liggi fyrir og hvort það sé ekki gott á þessum tímapunkti að undirbúa verkefnið enn betur, tryggja fjármagn til lengri tíma og ná um verkefnið víðtækari sátt.