151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

Ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

568. mál
[14:53]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki á því heldur. Ábyrgðin er hjá ríkisstjórninni og hún er undir forystu Vinstri grænna þannig að sá flokkur þarf að svara fyrir það. Ég trúi ekki að sá flokkur ætli að fara í kosningabaráttuna án þess að uppfylla þetta. Verði þeim að góðu. Ég ætla að nota síðustu andartökin í þessum sal til að minna á þetta aftur og aftur. Við verðum að ljúka þessu. Við höfum ákveðið í öllum flokkum að stíga þetta skref og þetta skiptir máli. Þetta er ekki bara táknrænt, til að tala inn í einhvern hóp, þetta eykur raunverulega réttindi fatlaðs fólks og öryrkja á Íslandi. Erum við ekki sammála um það? Við vorum sammála um það fyrir tveimur árum. Ég veit ekki hvar málið strandar. Ég sé að hv. þingmaður, framsögumaður málsins, ætlar að koma í andsvar við mig og kannski getur hv. þingmaður komið með svör hvað þetta varðar því að við getum öll verið samferða hér. (Forseti hringir.) Þetta er ekki flokkspólitískt mál, þetta er okkar hjartans mál. Ég brenn svo sannarlega fyrir þessu máli. Við hljótum (Forseti hringir.) að geta vakið þessa ríkisstjórn af þyrnirósarsvefni.