151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

Ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

568. mál
[14:56]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki alveg rétt, við getum alveg sett lög í andstöðu við fullgilda alþjóðasamninga vegna þess að alþjóðasamningar eru ekki lög. Samningurinn hefur bara gildi að þjóðarétti, ekki að landsrétti. Þetta skiptir máli. Og ég er svolítið hissa á að hv. þingmaður átti sig ekki á því hvar þetta mál er statt. Hefur þetta ekkert verið rætt á þingflokksfundi Vinstri grænna? Ríkisstjórninni var falið þetta hlutverk. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hafið þið ekkert rætt þetta mál þau tvö ár frá því að samþykktin var kláruð? Hvar stendur málið? Jú, það er komin ný þýðing, ég er ekki amast við henni, en það er bara dropi í hafið miðað við það sem við skuldbundum okkur til að gera, sem var að lögfesta samninginn og ljúka aðlögun íslenskra laga að honum. Þetta skiptir máli. Það getur vel verið að við þurfum að breyta lögum, og mér er bara alveg sama um það, þá gerum við það, við gerum ekkert annað í þessum sal. Ef þetta hefur ekki verið rætt á þingflokksfundum Vinstri grænna vil ég hvetja hv. þingmann til að taka málið upp á næsta fundi þingflokksins og síðan upplýsa þjóð og þing um hvar það er statt. Ég veit að hv. þingmaður er sammála málinu, ég veit það alveg. Þess vegna finnst mér svo skrýtið að ég sé að nuddast í þessu hér á göngum Alþingis, sem ég hef verið að gera, og úr þessum ræðustól. Er einhver andstaða við málið? Ég átta mig ekki á því. Þá þarf sú andstaða bara að koma fram í dagsljósið. Jú, það voru tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem greiddu þessu máli ekki atkvæði sitt en restin gerði það. Þetta var þverpólitískt mál, flott mál, sem skipti fólk miklu máli í réttindabaráttu sinni, réttindavernd gagnvart sveitarfélögum og ríkinu og jafnvel einkaaðilum.