151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

störf þingsins.

[13:03]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Sagan geymir ýmis dæmi þess að ný tækni og nýjar vörur og nýir viðskiptahættir sem þeim fylgja rjúfi einokun á ákveðnum sviðum og það þótt að ríkisvaldið sé alveg staðráðið í því að halda einokunarstöðu sinni. Með aukinni netverslun undanfarinna ára hefur einokun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til að mynda verið rofin að því leyti að Íslendingar geta núna með einföldum hætti pantað áfengi frá öðrum smásölum en ÁTVR, en þó aðeins frá erlendum smásölum handan hafsins með tilheyrandi óhagræði fyrir viðskiptavini hér á landi vegna tíma og kostnaðar sem fylgir þessum flutningi yfir hafið.

Undanfarna daga hefur verið sagt frá því í fréttum að franskt fyrirtæki, Santewines SAS, bjóði Íslendingum nú að kaupa vín á vef sínum og fá það afhent samdægurs eða næsta virka dag. Samkvæmt upplýsingum á vef fyrirtækisins er birgðahald fyrirtækisins hér á landi sem útskýrir stuttan afgreiðslutíma. Það er rétt að halda því til haga að fyrirtækið skilar, að því að mér skilst, öllum áfengissköttum til ríkissjóðs og áfengisverslunarinnar og gætir einnig að aldri viðskiptavina.

Nú vaknar sú spurning, virðulegur forseti: Til hvers erum við að halda í þessa einokunarverslun ríkisins? Til hvers höldum við þessum einokunartilburðum áfram? Þeir virðast eingöngu hafa þau áhrif að fyrirtæki sem gætu verið stofnuð hér á landi eru stofnuð erlendis og greiða þar tekjuskatt ef vel gengur. Varla trúa menn því að það breyti einhverju um drykkjuvenjur hvort vefverslun er skráð til heimilis í Búrgundí eða hér á landi.

Virðulegur forseti. Við eigum að færa þessa verslun heim í hérað, frá Búrgundí í Bústaðahverfið, svo dæmi sé tekið. Kominn tími til fyrir löngu.