151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

auknar rannsóknir á þremur nytjastofnum í sjó við landið.

[14:08]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Allt í kringum okkur eru gjöful fiskimið. Veiðar og vinnsla sjávarfangs er ein af helstu undirstöðum í uppbyggingu velferðarríkisins á Íslandi. Stefna stjórnvalda í sjávarútvegi á að stuðla að sjálfbærri og ábyrgri nýtingu lifandi náttúruauðlinda í hafi, byggt á sterkum vísindalegum grunni. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, hafa tekið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026 og er þar margt áhugavert sem ég get tekið undir. Þar ræða þau m.a. um að þegar efnahagsleg niðursveifla er í gangi, og þá sérstaklega tengt Covid, séu allir markaðir sérlega viðkvæmir og sala sveiflukennd. Þá sé þörf á að horfa til fleiri tækifæra. Þau telja afar mikilvægt að efla og bæta verulega rannsóknir á lífríki sjávar og að Hafrannsóknastofnun verði tryggt fullnægjandi fjármagn til nauðsynlegra rannsókna. Hér er ég mjög sammála. Í nýrri fjármálaáætlun 2022–2026 kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Útgjaldaáætlunin byggist alfarið á stefnumörkun gildandi fjármálaáætlunar og fjárlögum 2021 og hefur einungis verið uppfærð vegna veigameiri breytinga sem leiða af uppfærðri þjóðhagsspá og í einstaka tilvikum breytingum Alþingis við 3. umr. fjárlaga sem ekki hafði verið tekið tillit til í gildandi áætlun.“

Herra forseti. Vandaðar rannsóknir eru forsenda þess að auðlindin okkar í hafinu verði nýtt á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Því er borðleggjandi að útgjöld til Hafrannsóknastofnunar geta skilað margföldum ávinningi. Auknar rannsóknir á nýtingu fjölmargra minni fiskstofna verður að stunda með ásættanlegum hætti. Það gæti skilað mörgum tækifærum um allt land og ýmis tækifæri gætu sprottið upp í brothættum byggðum. Rannsóknir á nýtingu fjölmargra minni fiskstofna hafa aldrei verið stundaðar með ásættanlegum hætti. Það er ekki nægilega gott. Nauðsynlegt og löngu tímabært er að gerðar verði ráðstafanir með myndarlegri eflingu rannsókna.