151. löggjafarþing — 95. fundur,  11. maí 2021.

aðgerðir til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis.

612. mál
[16:14]
Horfa

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tímamótamáli að mínu mati því að það er á undan sinni samtíð. Það verður sjálfsagt eftir nokkur ár að tala fyrir máli eins og þessu. Þetta mál er um aðgerðir til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis, um veganisma og grænmetismat.

Tillagan hljóðar svona:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa markvissar aðgerðir til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis í þeim tilgangi að draga úr hamfarahlýnun, auka dýravelferð, stuðla að ábyrgari auðlindanýtingu, minnka kolefnisspor matvæla og bæta heilsufar fólks.“

Takið eftir að þetta tikkar í ansi mörg box. Þá má spyrja sig: Hvað er hið opinbera að skipta sér af því hvers við viljum neyta? Jú, hið opinbera gerir það nú þegar með ýmsum hætti og hið opinbera hefur ýmsum skyldum að gegna þegar kemur að framboði og eftirspurn eftir matvælum. Stjórnvöld styrkja ýmsa matvælaframleiðslu núna með beinum og óbeinum hætti, t.d. með búvörusamningum upp á 12 milljarða á hverju einasta ári. En vitið þið hvað stór hluti af þeim búvörusamningum fer í styrki sem tengjast garðyrkjuvörum? Það eru einungis 5%. Þetta er dæmi um þau áhrif sem hið opinbera hefur á framboð á matvælum í þessu landi. Hið opinbera hefur sömuleiðis ýmsum skyldum að gegna þegar kemur að fræðslu um neyslu matvæla, bættu heilsufari að sjálfsögðu og lýðheilsu. Þá standa stjórnvöld einnig, og takið eftir þessu, fyrir margs konar innkaupum á fæði, svo sem í skólum, stofnunum, hjúkrunarheimilum, fangelsum og jafnvel fyrirtækjum. Þau kaupa fullt af mat. Hlutverk hins opinbera er líka að sinna dýravelferð, sá vinkill er einnig á þessu máli. Þá ber að nefna að hagsmunir neytenda eru að sjálfsögðu á borði hins opinbera í mörgum ákvarðanatökum þegar kemur að matvælaframleiðslunni sjálfri, vörumerkingum, tollum og vörugjöldum. Loks gegna stjórnvöld lykilhlutverki þegar kemur að aðgerðum gegn hamfarahlýnun og loftslagsbreytingum. Þetta er stóra málið. Sömuleiðis er hið opinbera leiðandi í allri umræðu og aðgerðum varðandi almenna auðlindanýtingu í landinu. Að mati flutningsmanna helst þetta allt saman í hendur. Þess vegna er mjög brýnt fyrir hið opinbera að skoða þessi mál heildstætt, einmitt með það að markmiði að auka bæði framboð og valfrelsi neytenda en einnig neyslu á grænkerafæði, grænmeti og ávöxtum og öðru slíku.

Samtök grænkera á Íslandi hafa sent frá sér áskorun til stjórnvalda um aðgerðir í þessum efnum. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Lítið virðist þó vera á döfinni varðandi einn mikilvægasta þáttinn í þessu samhengi,“ — þ.e. hamfarahlýnunina — „þ.e. að draga úr neyslu dýraafurða. Stjórnvöld hafa ekki gefið nein skýr skilaboð frá sér varðandi þennan þátt, en landbúnaður telur 13% af losun Íslands miðað við Kyoto-bókunina (en 21% af losun sem fellur undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda). Um 50% af þessari losun landbúnaðar er metangaslosun vegna dýraeldis, en metangas er gróðurhúsalofttegund sem er 25 sinnum skaðlegri umhverfinu en koltvísýringur.“ — Sem við erum oft að fókusera á. Þá hafa börnin okkar sömuleiðis verið að senda okkur skýr skilaboð á hverjum einasta föstudegi um að við þurfum að fara að ráðast í aðgerðir gegn loftslagsbreytingum því að þetta skiptir máli.

Við skulum öll líta til framtíðar og stækka aðeins sviðið, frú forseti. Næstu 30 árin mun mannkyninu fjölga um 2 milljarða einstaklinga, hugsið ykkur, næstu 30 árin. Það er eins og eitt og hálft Kína bætist við og það þarf fæðu til að mæta þessum fjölda. Í nýrri skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var sérstaklega sagt að Vesturlandabúar yrðu að fara að neyta í meira mæli fæðu úr jurtaríkinu til að geta spornað við loftslagsbreytingum enda er kjötneysla orðin of mikil. Enginn er að tala um að útiloka hana, við þurfum bara að færa okkur yfir í hið græna. Við þurfum að fara að fókusera á hið græna í stað þess ferfætta. Við sjáum að 20% allrar losunar gróðurhúsalofttegunda má rekja til matvælaframleiðslu og af losun vegna matvælaframleiðslu eru tæp 60% vegna dýraafurða. Um daginn las ég grein í The Economist — alvöru blað — og þeir sögðu: Ef kýr væru land væru þær í þriðja sæti yfir mestu framleiðendur gróðurhúsalofttegunda. Hugsið ykkur, þessi gegndarlausa kjötframleiðsla úr ýmsum búfénaði, ekki síst nautgripum, svínum og kjúklingum, er afskaplega skaðleg fyrir stóru myndina. Það er það sem Sameinuðu þjóðirnar og sérfræðingar hafa verið að benda okkur á.

Ef við ætlum að ná loftslagsmarkmiðum er nauðsynlegt að draga úr neyslu dýraafurða. Það er hvatning Sameinuðu þjóðanna til okkar allra. Það er líka bara „common sense“, frú forseti, þetta er almenn skynsemi. Það getur ekki gengið að 10 milljarðar mannkyns neyti kjöts í þeim mæli sem nú er gert. Það er mjög dýrt að framleiða kjöt, það krefst landsvæðis, það krefst þess að skógar séu ruddir, það krefst gríðarlegrar vatnsnotkunar. Það fer rosaleg orka í að búa til þá orku sem við fáum úr kjötinu. Þetta mál er því bara hluti af stóru myndinni, hluti af því að tala fyrir ábyrgri auðlindanýtingu og þar á meðal á vatni og landi. Þá sjáum við að annar vinkill á þessu máli er matarsóunin. Matarsóun er stór hluti af kolefnislosun eða allt að 10% allrar losunar á heimsvísu þannig að samhliða því að draga úr neyslu á dýraafurðum þurfum við að taka á matarsóun og finna leiðir til að nýta það sem fellur til.

Frú forseti. Förum aftur til Íslands. Vegna landfræðilegrar stöðu landsins þurfum við undantekningarlaust að flytja matvæli nokkuð langa leið. Það getur þýtt að kolefnisfótsporið frá innfluttum matvælum sé hærra en frá innlendum þótt það sé ekki algilt. Þess vegna hef ég kallað eftir því og skrifað grein sem heitir „Grænn gróði“ — falleg fyrirsögn að mínu mati. Þar bendi ég á mjög skynsamlega tillögu um að við ættum að stórauka hér grænmetisframleiðslu. Þá veltir fólk kannski fyrir sér: Hvernig dettur manninum þetta í hug? Við búum á Íslandi. Meðalhiti á Íslandi er 4° sem er jafnmikið og í ísskáp. En það er einmitt staða Íslands á hnettinum sem gerir okkur fært að stórauka grænmetisframleiðslu, því að hvað þarf grænmetisframleiðsla? Vatn, heitt og kalt, við eigum nóg af því, orku, við eigum nóg af henni, landsvæði, við eigum nóg af því. Þetta er skynsamleg hugmynd sem tekur á aðkallandi vandamálum heimsins í dag. Þetta býr til atvinnu og umsvif, stuðlar að bættu heilsufari. Aftur: Það tikkar í svo mörg box.

Nýverið, í fyrra minnir mig, ákvað þessi ríkisstjórn að auka styrki til framleiðslu grænmetis um einn fjórða. Í þessari ágætu grein minni segi ég: Það er bara allt of lítið. Við eigum ekki að auka grænmetisframleiðslu um einn fjórða, við eigum að fjórfalda hana. Hugsum stórt. Við þurfum að vaxa upp úr þessari kreppu og það er ekki verra að við getum haft vöxtinn grænan og vænan og jafnvel borðað hann. Hér vil ég líta til sjávarútvegsins. Íslendingar eru á heimsmælikvarða þegar kemur að matvælaútflutningi á sviði sjávarútvegs. Íslenskur fiskur er dýr úti í heimi. Ég varpa fram þeirri hugmynd úr þessum stól að við hugsum þannig um grænmetismálin. Ég er ekki að tala um að flytja út einhverjar ódýrar gúrkur frá Íslandi, ég er að tala um hágæðagrænmetisframleiðslu með flóknu grænmeti og yfir í þörunga eða hvað sem markaðurinn og bændur treysta sér til að fara í og flytja það út á „high end“-markaði. Íslenskt grænmeti sem við flytjum út getur verið dýrt og uppfullt af gæðum en við þurfum bara að setja þetta á dagskrá.

Stuðningur við grænmetisframleiðslu er í skötulíki á Íslandi en búið er að benda á þetta. Lækkið raforkukostnaðinn fyrir okkur, minnkið flutningskostnaðinn, segja garðyrkjubændur. Við getum gert þetta allt í þessum sal en það er tregða. Stuðningur við grænmetisframleiðslu á Íslandi fær svona að fljóta með þegar ráðherrarnir muna eftir því. Mér finnst það eiga að vera þungamiðja í atvinnustefnu Íslands að veðja á grænmetisframleiðslu. Það er svo sannarlega markaður fyrir það. Nýtum þá frábæru kosti sem Ísland hefur þegar litið er til orku, jarðvarma, ylræktar og vatns. Af þessu eigum við nóg. Þannig að samhliða þessu eigum við að efla grænmetisframleiðslu og beita hagrænum hvötum. Við hagfræðingar erum mjög hrifnir af hagrænum hvötum. Upp á það hefur vantað þegar kemur að svona aðgerðum, þegar kemur að hinu græna. Beitum hagrænum hvötum, stuðningi og styrkjum þar sem þörf er á. Hér er markaðsbrestur — annað hugtak úr hagfræðinni — sem ríkið þarf að mæta. Það eru því ýmis atriði, ýmis tækifæri. Ég verð bara spenntur að tala um þetta og ég vona að einhver hlusti á þetta og geri þetta að veruleika eftir að maður er farinn héðan.

Það eru ýmis önnur rök með grænkerafæði. Förum aðeins yfir þau. Það eru ekki bara aðgerðir gegn hamfarahlýnun og bætt nýting auðlinda sem mælir með neyslu á grænkerafæði. Auðvitað eru það heilsufarsrökin. Við vitum öll að það er gríðarlega hollt að borða grænmeti og ávexti. Og ég tek það fram að ég er ekkert að banna einum eða neinum að borða kjöt. Valfrelsi neytenda er fyrir hendi en fyrst við erum á annað borð að styrkja matvælaframleiðslu færum okkur þá hægt og rólega yfir í hið græna, hjálpum bændum sem það kjósa að breyta sinni framleiðslu. Ég styð stuðning við landbúnaðinn, fyrr má nú vera, en við þurfum að taka markvissari skref. Við þurfum að auka hér neyslu á grænmeti og ávöxtum. Aukin grænmetisframleiðsla og minni neysla af unnum kjötvörum getur komið í veg fyrir ýmsa lífsstílssjúkdóma og neysla á sjávarafurðum hefur sömuleiðis marga kosti.

Þá eru það siðferðislegu rökin, ég vil líka telja þau til. Ég er mikill dýraverndunarsinni, hef skrifað fjölmargar greinar og ítrekað talað um það í þessum sal að reyna að beina fókus á aukna dýravernd, oft fyrir daufum eyrum. Aðbúnaður húsdýra víða um heim, kannski hér í einhverjum tilvikum, er ekki boðlegur. Þessi gegndarlausa fjöldaframleiðsla á svínum, á kjúklingum, megum við ekki aðeins endurskoða þetta? Þetta er allt hluti af umræðunni um umhverfismál. Umhverfismál mega ekki bara snúast um fossa og einhver víðerni og grjót, umhverfisumræðan þarf líka að snúast um dýrin, frú forseti.

Þá eru það efnahagslegu rökin sem eru einnig fyrir aukinni neyslu á grænkerafæði, bæði fyrir hið opinbera og einstaklinga. Aðalatriðið er að við beinum þeim stuðningi sem við erum á annað borð að beita okkur fyrir yfir í aukið framboð á grænkerafæði. Ég á þrjár dætur, tvær af þeim, og í raun og veru þær allar, hafa verið grænmetisætur í einhvern tíma, svona „on and off“. Þær hafa allar sagt að það vanti meira úrval af grænkerafæði þar sem þær eru, t.d. í skólum. Ég veit að ástandið er að batna en stígum stærri skref, höfum kjötið sem undantekningu en ekki grænmetið. Það er betra fyrir alla, fyrir fólkið sem neytir þess, fyrir efnahaginn, fyrir atvinnulífið o.s.frv. Þetta er tækifæri og við verðum að sameinast um að feta þessa leið. Þetta mál hefur svo spennandi vinkla, allt frá manns eigin heilsu yfir í hvernig við tæklum fólksfjölgun á jörðinni og loftslagsbreytingar. Hugsið ykkur, það er í rauninni allt sem mælir með samþykkt þessa máls um að hér séu undirbúnar markvissar aðgerðir til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis.

Ég hef skrifað hér í lokin að við leggjum að sjálfsögðu áherslu á, þótt neytendur hafi valfrelsi þegar kemur að neyslu matvæla, að hlutverk hins opinbera sé mjög mikilvægt í þessum efnum. Aukin neysla grænkerafæðis hefur ýmsa kosti í för með sér og svarar kalli nútímans, hvort sem litið er til loftslagsmála, dýravelferðar eða heilsufars, hvorki meira né minna, frú forseti.