151. löggjafarþing — 95. fundur,  11. maí 2021.

happdrætti Háskóla Íslands og happdrætti.

629. mál
[17:00]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um happdrætti Háskóla Íslands og lögum um happdrætti (bann við spilakössum). Flutningsmaður er Inga Sæland auk mín.

„I. kafli

Breytingar á lögum um happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:

a. Orðin „skyndihappdrættis með peningavinningum, svo og“ í 2. mgr. falla brott.

b. 3. mgr. fellur brott.

2. gr.

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Ráðherra skal gera samning við Háskóla Íslands um fjármögnun vegna uppbyggingar og viðhalds fasteigna á Háskólasvæðinu. Áætlað tekjutap Happdrættis Háskóla Íslands vegna lokunar spilasala árin 2021–2024 skal jafna á móti greiðslum vegna samnings um uppbyggingu og viðhald fasteigna á Háskólasvæðinu.

II. kafli

Breyting á lögum um happdrætti, nr. 38/2005, með síðari breytingum.

3. gr.

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Ríkissjóður skal greiða hluthöfum Íslandsspila bætur vegna tekjumissis að fjárhæð 1 milljarðs kr., á ári hverju, árin 2021–2024. Skal sú greiðsla skiptast þannig að Rauði krossinn á Íslandi fái 64%, Slysavarnafélagið Landsbjörg fái 26,5% og SÁÁ fái 9,5%.

4. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um söfnunarkassa, nr. 73/1994.

[…] Með frumvarpi þessu er lagt til að rekstur spilakassa verði með öllu bannaður.

Fjárhættuspil eru almennt bönnuð á Íslandi. Í almennum hegningarlögum eru ákvæði sem kveða á um bann við fjárhættuspilarekstri og veðmálastarfsemi. Lengi hefur þó tíðkast að veita undanþágur frá þessu banni og heimila góðgerðafélögum og almannaheillafélögum að starfrækja happdrætti, hlutaveltu, getraunir og spilakassa. Upphaf slíkrar fjáröflunar má rekja til svokallaðra tíkallakassa sem fjármögnuðu aðstoð vegna eldgossins í Vestmannaeyjum. Undanfarið hefur umræða skapast um rekstur spilakassa og hvort sú starfsemi sé í raun svo skaðleg að rétt sé að banna hana með öllu.

Samtök áhugafólks um spilafíkn (SÁS) hafa undanfarin tvö ár staðið fyrir átakinu „Lokum spilakössum“, eða Lokum.is. Markmiðið er að vekja athygli almennings og stjórnvalda á þeirri skaðsemi sem hlýst af rekstri spilakassa. Á vefsíðu samtakanna má lesa reynslusögur spilafíkla og aðstandenda þeirra. Þær sýna svart á hvítu hversu miklum skaða spilafíkn veldur samfélaginu. Átakið hefur vakið mikil viðbrögð í samfélaginu og hefur strax skilað árangri.

Stjórn SÁÁ ákvað árið 2020 að draga sig út úr rekstri Íslandsspila þrátt fyrir vænt tekjutap upp á tugi milljóna króna. Einar Hermannsson, formaður SÁÁ, sagði um ákvörðunina að þeim fyndist það ekki vera þess virði og ekki samræmast gildum SÁÁ að taka þátt í rekstri á spilakössum og vera þátttakandi í Íslandsspilum. Sagði hann afleiðingarnar fyrir SÁÁ beint vera tugmilljóna króna skerðingu á sjálfsaflafé en að traust og virðing væri meira virði. Þá hefur Rauði krossinn kallað eftir því að stjórnvöld innleiði svokölluð spilakort. Spilakort koma þá í veg fyrir að hægt sé að eyða umfram tiltekið viðmið í spilakassa á ákveðnu tímabili.

SÁS lét framkvæma skoðanakönnun um viðhorf almennings til spilakassa og leiddi hún í ljós að um 86% Íslendinga vilji banna slíkan rekstur. Þá voru 71% aðspurðra ósátt við að starfsemi í almannaþágu væri fjármögnuð með rekstri spilakassa.

Spilakassar eru hannaðir til að ýta undir spilafíkn. Ólíkt happdrættum þá skila þeir niðurstöðu samstundis og hægt er að taka þátt strax aftur. Það ýtir undir vanamyndun og því eru þátttakendur mun líklegri til að þróa með sér fíkn heldur en þátttakendur í happdrættum. Þá er útreiknað vinningshlutfall spilakassa almennt hærra en sambærilegt hlutfall í happdrættum og það getur ýtt undir ranghugmyndir notenda um afleiðingar þátttöku. Spilakassar velta yfir milljarði króna á ári hverju þrátt fyrir tiltölulega fáa notendur. Það gefur til kynna að veltuna megi að mestu leyti rekja til spilafíkla sem eyði verulegum fjármunum í fíkn sína.

Það er orðið löngu tímabært að hætta rekstri spilakassa á Íslandi. Það getur ekki réttlætt svo skaðlega starfsemi að ágóðinn renni til góðgerðamála. Það gerir lítið gagn að innleiða svokölluð spilakort. Sú aðferð myndi hvorki leysa fjármögnunarvanda góðgerðafélaga né vinna gegn vanda spilafíkla. Það eina sem dugar er algert bann. Þá er það engin afsökun að vísa til þess að Íslendingar hafi aðgang að fjárhættuspilum í gegnum erlendar vefsíður. Erlendar spilasíður eru vissulega skaðlegar og þörf er á frekari aðgerðum til að koma í veg fyrir aðgengi að þeim á Íslandi. Við getum ekki afsakað eigin sóðaskap með því að benda á háttsemi annarra. Við eigum að stefna að því að koma í veg fyrir aðgengi að erlendum spilasíðum í stað þess að nota tilvist þeirra til að réttlæta áframhaldandi rekstur spilakassa.

Um þessar mundir hafa tvö félög heimild til reksturs spilakassa. Happdrætti Háskóla Íslands rekur spilakassa undir nafninu Gullnáman og Íslandsspil, félag í eigu Rauða krossins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sér einnig um rekstur spilakassa. Frumvarp þetta leggur til að heimildir til reksturs spilakassa verði felldar brott úr lögum um Happdrætti Háskóla Íslands og að lög um söfnunarkassa falli úr gildi. Með samþykkt frumvarpsins yrði ekki heimild í lögum til að starfrækja spilakassa og myndi slík starfsemi því varða refsiábyrgð skv. 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga.

Til að koma í veg fyrir tekjufall hjá rekstraraðilum Íslandsspila er lagt til að ríkissjóður greiði hluthöfum árlega 1 milljarð kr. árin 2021–2024. Hagnaður Happdrættis Háskóla Íslands hefur í gegnum tíðina verið nýttur til uppbyggingar á háskólasvæðinu. Til að fjármagna viðhald og áframhaldandi uppbyggingu er lagt til að ráðherra geri samning við Háskólann um uppbyggingu á svæðinu og að ríkissjóður sjái um að fjármagna uppbyggingu með lánveitingum til Háskólans. Lagt er til að áætlað tekjutap HHÍ vegna lokunar spilasala árin 2021–2024 gangi upp í greiðslur vegna samningsins. Framangreindar aðgerðir koma í veg fyrir skyndilegt tekjufall rekstraraðila spilakassa en ljóst er að þörf er á frekari stefnumótun um fjármögnun SÁÁ, Landsbjargar, Rauða krossins og Háskóla Íslands. Von er að sú stefnumótun fái forgang hjá stjórnvöldum verði frumvarpið samþykkt.“

Í lögum kemur skýrt fram að bannað er að reka spilavíti á Íslandi. En hvað blasir við fólki bara hér rétt norðan við Alþingishúsið, í Hafnarstræti þar sem einn af þessum spilakössum er? Þar stendur skýrum stöfum framan á húsinu: casino, spilavíti. Það er algjörlega með ólíkindum að Háskóli Íslands sé fjármagnaður með spilafíkn. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum er það hægt að menntastofnun þar sem siðfræði er kennd fjármagni á sama tíma ákveðinn hluta af húsakynnum sínum með spilakössum sem eingöngu veldur því að spilafíklar halda að stærstum hluta uppi þeim gróða? Þetta er gjörsamlega siðferðislega rangt. Það segir sig sjálft að spilafíkn hefur valdið gífurlegu tjóni hjá viðkomandi spilafíkli og ekki síður hjá fjölskyldu hans og vinum. Það er ekki bara fjárhagstjónið heldur andlegt og líkamlegt tjón og það skelfilega ástand sem skapast hjá viðkomandi spilafíkli.

Það er ekki hægt að réttlæta það á nokkurn hátt að ríkið setji lög sem eru til þess fallin að ákveðin félagasamtök sem eru að gera góða hluti, SÁÁ, Landsbjörg, Rauði krossinn og Háskóli Íslands, þurfi að reiða sig á spilafíkla. Það segir sig sjálft að það er okkur algerlega til háborinnar skammar. Nú hafa verið samþykkt lög sem gera það að verkum líka að framlög til almannaheillafélaga eru frádráttarbær frá skatti. Þar af leiðandi hlýtur maður frekar að hvetja til þess að þeir sem vilja styðja viðkomandi félög geri það og njóti þar af leiðandi skattfrádráttar af þeim styrkjum og einnig að ríkið tryggi í eitt skipti fyrir öll að þessi félög þurfi ekki á nokkurn hátt að vera fjárhagslega háð því að örfáir veikir einstaklingar séu að leggja aleiguna undir, aleigu sína og jafnvel fjölskyldunnar og jafnvel framfærslu fjölskyldunnar, jafnvel allt húsnæði fjölskyldunnar eins og við vitum dæmi um.

Það verður bara að segjast alveg eins og er að við verðum að taka ofan fyrir SÁÁ fyrir að draga sig út úr þessu. Það er vonandi fyrsta skrefið í þá átt að hinir geri það einnig, sjái villu síns vegar. Við getum ekki, við eigum ekki og við megum ekki leyfa því að viðgangast að æðsta menntastofnun okkar, Háskóli Íslands, sé háð spilafíklum. Það getur ekki á neinn hátt verið réttlætanlegt að ungmenni okkar fari inn í þá stofnun til að leita sér menntunar, fari jafnvel í siðfræðideildina til að kortleggja siðferði mannkyns. Hvar á þá að byrja á því siðferði? Auðvitað byrjum við á því að tékka á því hvernig fjármögnun háskólans er háttað. Auðvitað á ríkisstjórnin og við að sjá til þess að ekki þurfi að vera neinn vafi um það að ekki eigi að fjármagna nokkra svona stofnun, hvorki stofnun eins og þessa, Landsbjörg, SÁÁ né Rauða krossinn, með framlögum spilafíkla, spilakassa. Það er engin afsökun að segja að þetta fari í önnur spil á netinu vegna þess að spilakassarnir eru allt öðru vísi byggðir upp. Þeir eru byggðir upp til þess að valda fíkn, þeir eru byggðir upp til þess að sjá til þess að halda fólki — þetta eru ekki margir einstaklingar og það segir sig sjálft að ef við komum í veg fyrir það þá erum við að hjálpa stórum hópi fólks.