151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

ferðagjöf.

776. mál
[16:15]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir yfirlit hans og fagna því að hann skuli hafa notað tækifærið og kallað málið aftur inn í nefndina. Hann greindi réttilega frá því að við hv. þm. Sigurður Páll Jónsson erum samþykkir þessu nefndaráliti. Við erum samþykkir þessu máli, styðjum þetta mál og það gerir flokkur okkar, Miðflokkurinn. En við hefðum a.m.k. viljað kanna það mjög rækilega hvort það væru möguleikar vegna, eins og hv. þingmaður nefndi, reglna um ríkisstyrki að framlengja hina eldri ferðagjöf þannig að hún myndi gilda jafn lengi og sú nýja sem nú er verið að fjalla um.

Ég skýt því inn, herra forseti, að ég á svolítið erfitt með að taka mér í munn þetta orð, ferðagjöf. Þetta mál hófst upp með orðinu ferðaávísun og ég kann því miklu betur. Þetta er auðvitað fjármagnað af skattfé og þarna er verið að skila skattfé aftur í vasa greiðenda með það fyrir augum að þeir nýti það til þess að kaupa þjónustu af ferðaþjónustufyrirtækjum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé reiðubúinn til að styðja þá tillögu eða þá hugmynd að eldri ferðagjöfin verði framlengd þannig að hún gildi jafn lengi og sú nýja, að því tilskildu að hægt sé að tryggja að við myndum ekki lenda í ógöngum gagnvart ákvæðum um ríkisstyrki og að það fengist með þeim hætti samþykkt (Forseti hringir.) á vettvangi ESA, Eftirlitsstofnunar Evrópu.