151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að draga þetta hérna fram. Ég kom inn á það í ræðu minni og legg áherslu á að þetta verður jafnvægislist fram undan. Það er rétt að við samþykktum áætlun hér í desember. Hún byggir á stefnumörkun eins og þessi gerir. Hún byggir á sömu stefnumörkun málefnasviða. Þessi list fram undan verður að draga úr langtímaatvinnuleysi og gefa ekki eftir í uppbyggingu á velferðarkerfunum. Við reynum að draga fram í nefndaráliti okkar undirliggjandi rekstur þess vegna og taka frá Covid-aðgerðir. Vonandi tekst okkur að vaxa út úr þessu þannig að við þurfum ekki að grípa til harkalegra ráðstafana. Það verður, og er ítrekað líka í greinargerð með þessari áætlun, að gerast í ljósi efnahagsframvindunnar.